21.03.1923
Neðri deild: 25. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í C-deild Alþingistíðinda. (2296)

55. mál, útflutningur hrossa

Frsm. (Pjetur Þórðarson):

Það er ekki laust við, að mjer þyki kynlegt, hvað háttv. 1. þm. Rang. (GunnS) sækir fast að breyta þessu litla frv., sem hjer er til umr. Fyrri lið brtt. hans á þskj. 186, að í stað „1. nómember til 1. júní“ komi: 1. desember til 15. júní, lætur nefndin hlutlausan.

Atkv. nefndarmanna eru óbundin gagnvart því atriði; get jeg því gefið flm. von um, að einhverjir nefndarmenn greiði því atkv. En á síðari liðinn getur nefndin ekki fallist. Jeg minnist þess, að í fyrra kom það fram á fundi landbn. þessarar deildar, að forseti Búnaðarfjel. Íslands gat þess, að markaður mundu fást fyrir hross í Þýskalandi í aprílmánuði. Það var byrjað á ráðstöfuninni til hrossasölu þangað í fyrra, sem þó komu ekki til framkvæmda. Til þessa gæti komið enn. Auðvitað yrðu þá ekki flutt út önnur hross en þau, sem væru í góðu standi, eins og brtt. á þskj. 194 gerir ráð fyrir. Þess vegna virðist nefndinni óþarft að þrengja takmörkin meira fyrir því, að ekki sje flutt út nema hæf hross, ef ske kynni, að útflutningur á þessum tíma yrði nauðsynlegur, þegar gætt er nú betri útbúnaðar í skipum en áður var. — Um brtt. á þskj. 194 er það að segja, að nefndin hefir ekki borið sig saman um hana enn þá; en þó veit jeg, að fyrri liðinn getur hún ekki fallist á. Er það undarlegt, að þessi brtt. skuli vera fram komin, þar sem hún er aðeins endurtekning á því, sem stendur í lögum um þetta, frá 1897. Hún er alveg óþörf endurtekning á 1. gr. þeirra laga.

Eigi þá að hanga í síðara atriði till., að hrossin sjeu tamin og vel fóðruð, þá getur það ekki þýtt annað en að þau sjeu vel útlítandi. Ókunnugir menn geta ekki sjeð, hvort gott útlit hrossa stafi fremur af fóðri, því að hross geta verið feit og útlitsgóð á útigangi.

Jeg á ekki sök á því, þó að umræðurnar lengist að óþörfu, en læt mjer nægja að segja fyrir hönd nefndarinnar, að ef háttv. deildarmenn vilja teygja umræðurnar lengur eða endurtaka það, sem til er í lögum áður um þetta mál, þá þeir um það.