21.03.1923
Neðri deild: 25. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í C-deild Alþingistíðinda. (2299)

55. mál, útflutningur hrossa

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Áskorun hv. 1. þm. Rang. (GunnS) gefur mjer tilefni til svars. En úr því að jeg stóð upp á annað borð, ætla jeg fyrst að gera nokkrar almennar athugasemdir við þetta frv.

Það er ekki langt um liðið síðan fyrst voru settar nokkrar skorður við útflutningi á hrossum. Það var fyrst árið 1907, og var þá einungis bannað að flytja hross út á þilfari mestan hluta árs. Síðan var árið 1915 bannað algerlega að flytja hross út að vetrarlagi, eða á tímabilinu frá 1. nóv. til 1. júní. Hvorttveggja þessi lög voru sett í mannúðarskyni, því að hættara þótti við, að skip mundu hreppa vond veður að vetri til, og alveg ófært að láta hesta vera á þilfari, nema bestu sumarmánuðina. Enda þótt líkurnar sjeu fyrir því, að betri veður fáist að sumrinu til útflutnings, þá er þó slíkt mjög undir hendingu komið. Jeg hefi t. d. eitt sinn í ágústmánuði verið með skipi, sem var fullfermt af hestum, og hreptum við þá svo mikinn storm í Norðursjónum, að við urðum að liggja til drifs margar klukkustundir. Auðvitað leið hestunum þá illa. En það er ekki löng kvöl, því ferð niður til Englands tekur 4–6 daga. Ef fyrirbyggja skal, að hestum liði nokkurn tíma illa við útflutning, þá verður að banna hann algerlega, því skipin geta hrept óveður bæði sumar og vetur.

Breytingartillögur hv. 1. þm. Rang. (GunnS) munu ekki vera komnar fram til þess að tryggja frekar góða liðun hestanna á leiðinni, heldur vegna markaðshæfisins, því ekki getur verið spurning um það, að fyrri hluta júnímánaðar — en á þeim tíma vill hv. þm. banna útflutning — sje eins gott tíðarfar eins og t. d. í september, hvað þá heldur október. Það er líka alveg rjett hjá hv. þm., að á vorin eru hross yfirleitt ekki markaðshæf, sjerstaklega á tímabilinu frá aprílbyrjun og fram í júnímánuð. Einn greinagóður maður, sem nú er hjer í þinginu, hefir sagt mjer, að hann hafi eitt sinn verið staddur í Leith í júnímánuði, er skip kom þangað með íslenska hesta. Sagðist hann hafa skammast sín fyrir, hve horaðir þeir voru og aumingjalegir, enda hafi fólk safnast utan um hrossahópinn og gert gys að útliti þeirra eða aumkvað þau.

Sökum markaðsins tel jeg ekkert á móti því að samþykkja brtt. hv. 1. þm. Rang. (GunnS), því ekki ætti að saka, þótt rík áhersla sje lögð á það að flytja einungis út vel útlitandi hross. Þrátt fyrir það, að það getur verið tvíeggjað sverð fyrir stjórnina að hafa undan þáguheimild í lögum, þá ætla jeg samt að mæla með því, að þetta frv. verði samþykt. Eins og lögin eru nú, eru þau alt of ströng, en oft mikið í húfi fyrir bændur að geta ekki selt hrossin, þegar markaðurinn er haganlegastur. Stjórnin taldi ekki rjett að neita um útflutningsleyfi í vetur, þótt heimildin fyrir leyfinu væri vafasöm. En þessi sala hefir tekist vel, og hefir gróði bænda af henni orðið um 100000 krónur, og seldust hrossin minst 40000 krónum meira en fengist hefði fyrir þau á síðastliðnu sumri.

Annars hafa umræður ekki gefið mjer tilefni til frekari athugasemda í þetta sinn.