21.03.1923
Neðri deild: 25. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í C-deild Alþingistíðinda. (2300)

55. mál, útflutningur hrossa

Pjetur Ottesen:

Í öllum þeim umræðum, sem hjer hafa fallið í dag, en sjerstaklega þó í ræðu háttv. 1. þm. Rang. (GunnS), er engu líkara en að menn geri ráð fyrir því, að ekkert eftirlit sje haft með útflutningi hrossa, eða hvernig þau sjeu útlítandi. Það er eins og gert sje ráð fyrir, að hrossunum sje dembt út í skipið án nokkurs slíks eftirlits. Jeg skal benda á það, þó þess ætti nú ekki að vera þörf reyndar, að bæði í lögunum frá 1907, um útflutning hrossa, og eins í erindisbrjefi frá stjórninni til eftirlitsmannsins með útflutningunum, eru gerðar strangar kröfur um að flytja ekki út hross, nema í góðu ástandi. Er erindisbrjefið frá árinu 1908, landritaratíð hæstv. núverandi atvrh. (KIJ), og vitanlega hefir altaf og er enn eftir þessu farið. Þessi ótti. hv. 1. þm. Rang. (GunnS) og fleiri er því, hvað þetta snertir, alveg ástæðulaus. Og viðvíkjandi sögunni, sem hæstv. atvrh. sagði í ræðu sinni, um hrossin, er sett voru á land í Leith, þá býst jeg við, að það hafi verið fyrir þann tíma, er erindisbrjefið var gefið. (Atvrh. KIJ: Alveg rjett, það var fyrir þann tíma). Háttv. 1. þm. Rang. (GunnS) hefir verið reikull í ráði viðvíkjandi þessu máli og kemur með hverja brtt. ofan á aðra. Eins þykir mjer háttv. þm. Dala. (RJ), sem því miður er ekki viðstaddur nú, vaða reyk í þessu máli. Hann talaði um það, að ilt væri að vetri til að þurfa að flækjast inn á hverja smáhöfn til að tína saman hrossin, og að kostnaðurinn við það myndi gleypa upp hrossaverðin. Þessi hv. þm. veit nefnilega ekki, að hross eru venjulega ekki flutt út neina frá þremur höfnum á landinu, sem sje Reykjavík, Sauðárkróki og Borðeyri, og kannske Stykkishólmi stöku sinnum. Þessar aðfinsluástæður háttv. þm. Dala. (BJ) eru því eingöngu sprottnar af misskilningi og gersamlegri vanþekkingu í þessum sökum. Jeg held að jeg hafi veitt því rjett eftirtekt, að þessi sami hv. þm. (BJ) hafi látið orð falla á þá leið, að betra væri þó að senda út hrossin, þótt horuð væru, en drepa þau hjer úr hor. Þessi ásökun hans til bænda, um að þeir drepi úr hor, er jafnástæðulaus, sem aðrar ástæður hans gegn þessu frv., að því sleptu, hversu hlýleg hún er í garð bænda.

Með lögum frá 1907 og erindisbrjefinu frá 1908 á það að vert trygt, að einungis vel útlítandi hross sjeu send út, á hvaða tíma árs sem er, en auðvitað eru hrossin alt af fríðust, þegar líður á sumarið, og því, hvað það snertir, útgengilegust, en miðað við notkunina á hestunum, geta söluskilyrðin verið mun betri á ýmsum öðrum tímum. Því er gersamlega ótækt að girða fyrir það með lagaákvæðum, að hægt sje fyrir landsmenn að nota góðan markað fyrir hrossin, þegar hann býðst.