21.03.1923
Neðri deild: 25. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í C-deild Alþingistíðinda. (2302)

55. mál, útflutningur hrossa

Frsm. (Pjetur Þórðarson):

Jeg verð að álíta, að þetta kapp, sem háttv. flm. brtt. (GunnS) leggur á að breyta frv., sje fremur til þess að sýna, að hann sje þessum málum kunnugur, heldur en hann áliti svo mikla nauðsyn til reka, að settur verði tvöfaldur lagamúr utan um útflutning hesta. Hefi jeg þegar sýnt fram á, og fleiri háttv. þm., að með núgildandi lögum er næg trygging fyrir því, að ekki verði fluttir út aðrir hestar en þeir, sem vel eru markaðshæfir.

Það lítur út fyrir, að allir háttv. andmælendur frv., svo sem hv. þm. Dala. (BJ), hv. þm. Barð. (HK) og ekki síst hv. flm. brtt. (GunnS), sjeu á þeirri skoðun, að fyrirbyggja megi útflutning á illa útlítandi hrossum með því einu að setja ný lög til endurtekningar á því, er áður var í lögum. Mjer finst, að það, sem mest ríður á í þessu efni, sje að gæta þess, að eftirlitsmaðurinn gæti vel skyldu sinnar samkvæmt þeim lögum, sem nú eru fyrir hendi og gilt hafa hjer í næstliðin 17 ár.