21.03.1923
Neðri deild: 25. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í C-deild Alþingistíðinda. (2306)

55. mál, útflutningur hrossa

Gunnar Sigurðsson:

Jeg skal ekki lengja þessar umræður mikið, en get þó ekki stilt mig um að svara hv. þm. Borgf. (PO) fáum orðum. Hv. þm. gerði afarmikið úr því eftirliti, sem væri með útflutningi hrossa, einkum í Reykjavík. Jeg veit, að það er ekki eins gott og hann álítur, og tel miklu fremur þörf á að herða á því heldur en draga úr því. Dýralæknirinn í Reykjavík er að vísu mjög samviskusamur í þessu efni, en það hefir komið fyrir, að hross, sem hann hefir gert afturreka og dæmd óhæf til útflutnings, hafa verið rekin til annarar útflutningshafnar og send þaðan út. Jeg man það einnig, að norðlensk hross lentu fyrir 2 árum í svo miklum hrakningum á leiðinni suður hingað, að mjög var vafasamt, hvort rjett væri að leyfa útflutning á mörgum þeirra. Dýralæknirinn kvaðst leyfa það gegn mótmælum samviskunnar, aðallega vegna þess, hve langt þau voru komin að. (MG: Var þetta ekki um sumartíma?) Jú að vísu, en hross geta líka slæpst á sumrin, enda kemur það því ekki við, því jeg var að tala um eftirlitið alment, en þetta er ekki annað en venjulegur útúrsnúningur hjá hv. 1. þm. Skagf. (MG).

Þá gat sami hv. þm. (PO) þess, að jeg vær reikull í brtt. mínum. Það er alls ekki rjett. Jeg kom aðeins með eina brtt. og síðan viðaukabrtt., eftir að hafa átt tal um þetta við forseta Búnaðarfjelagsins og dýralækninn í Reykjavík, og voru þeir mjer sammála í því; kváðu þetta vera hinar minstu hömlur, sem unað yrði við. En þeir eru manna fróðastir í þessum efnum.

Jeg svaraði áðan hv. þm. Mýra. (PÞ), að núgildandi lög væru ekki samhljóða brtt. minni, því að þar er hert mikið á fyrirmælum laganna. Hv. þm. gat þess, að jeg mundi hafa borið fram þessar brtt. til þess eins að sýna, að jeg hefði vit á þessu máli. Jeg mótmæli þessu eindregið. Jeg bar þær fram einungis til þess, að markaðinum yrði ekki spilt. En jeg skal fúslega játa, að jeg vil ekki láta til mín taka um önnur mál en þau, sem jeg hefi kynt mjer rækilega og jeg er sjerstaklega kunnugur, og svo er í þessu efni. Reynsla mín hefir kent mjer, að ekki sje rjett að flytja út nema sjerstaklega falleg og vel útlítandi hross. Hygg jeg að verð þeirra mundi hækka mikið á útlendum markaði, ef þau væru enn betur valin en nú er, þó að eftirlit hafi verið sæmilega gott yfirleitt á seinni árum.