03.04.1923
Efri deild: 30. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í C-deild Alþingistíðinda. (2314)

55. mál, útflutningur hrossa

Jón Magnússon:

Jeg segi fyrir mitt leyti, að mjer þótti lakara, að það skyldi þurfa að breyta lögunum frá 1915. Held jeg, að alt þingið þá hafi verið þeirrar skoðunar, að það væri mesta hörmung að þurfa að flytja hesta út á vetrum. Er það vitanlegt, að vestra veðra er von í Atlantshafinu fyrir sunnan Ísland um hávetur. Koma þá oft slíkir stormar, er skipstjórar kalla orkan. Það þótti þá, 1915, óforsvaranlegt að flytja hesta út á þessum tíma, enda geta þá komið þau veður, að enginn hestur komist lífs af, þó að um góð skip sje að ræða, betri en áður. Annars hygg jeg að skip sjeu ei betri nú að þessu leyti en sum skipin, er áður fluttu hesta, að undanteknum Goðafossi. Jeg skal viðurkenna það, að í vetur, og ef til vill næsta vetur, verði ástæða til að flytja hesta fremur en áður, því að það kom fyrir, einkum eftir töku Ruhrhjeraðsins, að menn þurftu meira af svo nefndum pitponies við námurnar á Englandi, og hækkuðu hestar því í verði. En litlar líkur eru til þess, að þetta haldist, og þar fyrir utan held jeg, að eigi sje hægt að búast við neinum þjóðnytjum af því að fara illa með skepnurnar. Af þessum ástæðum hefi jeg komið með þá brtt. að láta lögin eigi gilda lengur en til 31. mars 1924. Þingið getur þá tekið málið upp aftur. Eftir því, sem þingið hefir gleypt við frv., býst jeg eigi við, að brtt. mín verði samþykt, en jeg vildi þá leyfa mjer að skjóta því til hv. nefndar, hvort hún væri á móti því að binda frv. sömu skilyrðum og í lögunum frá 1907, þannig, að það komi fram tillögur frá Búnaðarfjelagi Íslands um undanþágu. Stjórnarráðið mundi svo ákveða um útflutninginn með hliðsjón af tillögum Búnaðarfjelagsins. Það er rjett, sem hv. frsm. (GÓ) sagði, að brtt. mín gerir ekki mikinn mun, því að þingið getur tekið málið upp, ef það vill, en það verður að gera það, ef brtt. mín yrði samþykt. Það kann að vera ábati fyrir sum hjeruð landsins að flytja hesta út á vetrum, en það getur líka orðið tjón af því að geyma hestana til vetrarins, ef svo er ekkert flutt út þegar til kemur. Ef útflutningurinn verður ekki hindraður á þessum tíma með lögum, þá er jeg hræddur um, að landsstjórnin mundi altaf leyfa hann. Hjer stendur hvort á móti öðru, peningahagnaðurinn — eflaust þó óverulegur — og mannúðin. Er það sannarlega ekki mannúðlegt að flytja hesta út í vetrarveðrunum, eins og þau eru hjer oft. Jeg skil vel afstöðu hv. þm. (GÓ), sem er Norðlendingur og þekkir eigi eins og við veðráttuna hjer sunnanlands. Er það vafalaust rjett, sem einn norðlenskur þm. sagði, að það væru oft eins vond veður Í október á Norðurlandi og siðar á veturna.

Jeg skal svo eigi orðlengja meira. Það virðist máske ekki Í fljótu bragði mjög stórt atriði, hvort till. verður samþykt eða ekki. Málið má taka upp á næsta þingi hvort sem er. Þeir, sem samþykkja till., sýna þó að þeim er það óljúft, að farið sje að heimila útflutning hrossa á vetrum.