13.03.1923
Neðri deild: 19. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í B-deild Alþingistíðinda. (232)

12. mál, aðflutningsbann á áfengi

Forsætisráðherra (SE):

Jeg þakka hv. allshn. fyrir þær undirtektir, er frv. hefir fengið hjá henni. Að því er snertir sendiförina til Suður-Ameríku, þá er um hana að segja, að hún var fullráðin í ágústmánuði, og fór sendimaðurinn hjeðan 20. september. Ef til vill hefði verið betra, að fyr hefði verið farið, en jeg álít þó aðalatriðið, að hægt var að fá þennan mann í förina, sem flestir munu vera sammála um, að hafi verið sá besti, er völ var á. Sá maður er þektur að því að vera fylginn sjer og duglegur og hefir ágæta þekkingu á öllu, er að fisksölu lýtur. Annars er jeg samdóma háttv. frsm. (AIJ) um það, að málið muni eigi græða á löngum umræðum.