11.04.1923
Efri deild: 37. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í C-deild Alþingistíðinda. (2323)

55. mál, útflutningur hrossa

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Landbúnaðarnefnd kom fram með nokkrar breytingartillögur við frv. við 2. umr., en þær till., sem nokkru máli skiftu, voru feldar. Meiri hluti hv. deildar sá þá eigi neitt athugavert við að veita hæstv. landsstjórn heimild til að veita undanþágu um útflutning hrossa allan veturinn, en þó eigi vormánuðina, apríl — maí. Landbn. hefir haft marga fundi síðan, og þar sem sjáanlegt er, að þessu þingi muni eigi auðnast að breyta lögunum í betra horf, þá hefir nefndin orðið sammála um að leggja til, að deildin afgreiddi málið með rökstuddri dagskrá. En samkomulag nefndarinnar hefir eigi náð lengra en það, að dagskrárnar hafa orðið tvær, önnur frá meiri hl., 2 mönnum, en hin frá minni hl., 1 manni. Býst jeg við, að dagskrá minni hl. gangi út á það, að stjórnin verði æfinlega að gefa út bráðabirgðalög, hversu lítil sem undanþágan er, með öðrum orðum, hversu fáa hesta sem leitað er leyfis um að fá flutta út. Meiri hl. telur slíkt ákvæði óþarft, álítur óhætt að leggja það á vald stjórninni, hve nær nauðsynlegt sje að gefa út bráðabirgðalög og hve nær ekki. Skal jeg svo leyfa mjer að lesa upp dagskrá meiri hl.:

Deildin lítur svo á, að ráðuneytinu sje heimilt, ef alveg sjerstakar ástæður eru fyrir hendi, að leyfa útflutning á hrossum á tímabilinu frá 1. nóvember til 1. júní, og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.