24.03.1923
Efri deild: 26. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í C-deild Alþingistíðinda. (2332)

101. mál, hæstiréttur

Flm. (Jónas Jónsson):

Frv. þetta er svipað frv., sem lagt var fyrir þingið í fyrra. Ástæða þess er sú, að mörgum hefir þótt óþarfi að gera æðsta dómstól landsins jafndýran og raun hefir á orðið. Hjer er lagt til, að dómendur verði 3 og aðstoðarmannsembættið lagt niður og falið einhverjum dómendanna. Þetta er aðalatriðið, en frv. fer fram á fleira, sem ekki er jafnmikilvægt. Ein breyting, sem af frv. leiðir, er sú, að fljótt yrði tekin upp skrifleg málafærsla, og er það æskilegt, eftir skoðun ýmsra merkra lögfræðinga. Málaflutningur hefir orðið mjög dýr við hæstarjett og hefir mikið verið um það kvartað. Breytingin hefði sparnað í för með sjer, og jeg held það reyndist eins trygt til þess að menn gætu náð rjetti sínum, en annars vil jeg ekki fara hjer út í kosti og galla skriflegs málaflutnings.

Það er tekið fram í ástæðum fyrir frv., að það sje borið fram nú vegna þess, að líkur eru til, að bráðlega verði breyting á skipun rjettarins. Dómendur hafa leyfi til að fara frá með fullum launum, þegar þeir eru 65 ára og 2 dómendurnir hafa náð þeim aldri. Ef

þeir færu frá milli þinga, þá er hætt við að skipað verði í embættin, ef þetta frv. nær ekki fram að ganga nú, en fyrir þessa 2 dómendur hefir breytingin ekkert tjón í för með sjer, því að þeir halda launum sínum hvort sem er.

Aðalatriðið er þetta, hvort hægt sje að komast af með 3 dómendur eða hvort 5 eru nauðsynlegir. Það er kunnugt, að þegar hæstirjettur var fluttur heim, þá stóð fjárhagurinn í blóma og þá var mikill fullveldishugur í mönnum. Það var gert ýmislegt til þess að við gætum haldið til jafns við aðrar þjóðir, eða að minsta kosti til þess að við gætum reynt að láta það líta svo út. En slíkt er ekki heppilegt. Það er eðlilegt, að fjölmennar þjóðir þurfi fleiri dómendur. Í Danmörku er hæstirjettur skipaður 12 mönnum og er það hlutfallslega minna en þó að við hefðum 3, því við erum 30 sinnum færri.

Nú er mikið talað um að spara á rekstri þjóðfjelagsins, og þetta er ein tilraunin í þá átt. Og það er óhjákvæmilegt að spara fyrir þá þjóð, sem eyðir nálega öllum tekjum sínum í laun opinberra starfsmanna og hefir svo til ekkert afgangs til nauðsynlegra framkvæmda. Verði svo haldið stefnunni, getur þjóðin ekki lengi haldið fjárhagslegu sjálfstæði sínu. Og á þessum lið er hægt að spara. Það eru fleiri en jeg, og það menn, sein hafa sjerþekkingu á þessu sviði, sem hallast að þeirri skoðun, að fækka megi í hæstarjetti. Það er vitanlega hægt að halda því fram, að dómurinn sje betur skipaður með 5 mönnum, en það er ómögulegt að sanna það. Það er gert ráð fyrir, að í hæstarjett veljist ekki nema úrvalsmenn, sem hafa fulla starfskrafta, og ættu þá 3 að nægja.

Hæstirjettur hafði aðeins 30 mál til meðferðar í fyrra. Það kom fram við rannsókn, sem um það var gerð í hv. Nd. Þetta er vitanlega ekki sök hæstarjettar, og ekki sagt honum til ófrægðar, en það sýnir, að dómendurnir eru ekki um of störfum hlaðnir. Auk þess má benda á, að einn dómandinn hefir á hendi hálft prófessorsembætti, og mönnum kemur saman um, að hann geti haft það alt, því að það er mjög starfhæfur maður.

Þá sný jeg mjer að hæstarjettarritara. Menn þurfa ekki að óttast, að hann verði þung byrði, því maðurinn er ungur og hæfur, og fyrir slíka menn hefir þjóðfjelagið altaf þörf. Jeg vil t. d. benda á, að það þarf að fá einhvern slíkan mann til þess að stýra skattamálum landsins. Jeg geri sem sje ekki ráð fyrir, að það þurfi að setja manninn á biðlaun, enda veit jeg ekki hvort honum væri það kærara.

Jeg vil svo ekki fara fleiri orðum um málið að sinni, en vona, að það, sem frv. kann að vera ábótavant, verði bætt í nefnd.