24.03.1923
Efri deild: 26. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í C-deild Alþingistíðinda. (2336)

101. mál, hæstiréttur

Forsætisráðherra (SE):

Í háttv. Nd. sagði jeg um þetta mál, að jeg teldi mjög vafasamt að hægt væri að fækka dómendum í hæstarjetti á meðan dómsstigin væru aðeins 2. Nú hefi jeg aðeins kveðið enn ákveðnara að þessu, eftir frekari athugun á málinu. Jeg get því fullvissað hv. 5. landsk. þm. (JJ) um það. að öll framkoma mín í málinu er í fullu samræmi.

Jeg veit það vel, að tillögur hæstarjettar sjálfs eru ekki bindandi fyrir þingið, en þær hljóta þó alt af að vega mikið. Jeg verð líka að telja það óheppilegt, að fara að breyta um fyrirkomulag áður en það, sem fyrir er, er fullreynt. En svo er um hæstarjett, og er það of virðuleg stofnun til þess að leyfilegt sje að hringla með fyrirkomulag hans.

Viðvíkjandi hæstarjettarritaranum, þá er það einnig skoðun rjettarins, með því fyrirkomulagi, sem nú er á rjettinum, að ekki sje hægt að leggja þá stöðu niður.

Sparnaðurinn, sem af þessu leiðir, er að vísu nokkur, og það er satt, að einhversstaðar þarf að byrja að spara. En jeg held, að hæstirjettur sje ekki heppilegur til þeirrar tilraunar. Annars er jeg leiður af því að geta ekki fallist á þetta frv., einmitt af því sparnaður er í því, en jeg met meira trygging rjettarins og traust það, sem hann verður að hafa.