13.03.1923
Neðri deild: 19. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í B-deild Alþingistíðinda. (234)

12. mál, aðflutningsbann á áfengi

Forsætisráðherra (SE):

Eins og háttv. deild er kunnugt, var því lofað af hálfu stjórnarinnar að leggja þetta frv. fyrir þingið, og bestu kjörum áfram var lofað með því skilyrði, að frv. eins og þetta yrði samþykt. En ef ákveðið er, að það gildi aðeins til 3 árum yrði að hefja nýja samninga, og væri þá engin trygging fyrir því, að vjer yrðum aðnjótandi bestu kjara.

Háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) mintist á dæmi Norðmanna í þessu máli. Jeg hygg ábyggilega, að stjórnin norska hafi borið fram tillögu á þá leið að fara að dæmi okkar: semja við Spánverja og leyfa innflutning á vínum þaðan. Jeg þori ekki að fullyrða um þetta, því að jeg hefi ekki heyrt neitt um það af hálfu hins opinbera, en minnir fastlega, að hafa sjeð þessa getið í blöðunum. Hitt er fullkunnugt, að Norðmenn hafa átt við mikla örðugleika að stríða í þessu máli, og hygg jeg því óráð að gera nokkra þá breytingu, er þess yrði valdandi, að taka þyrfti upp nýja samninga.