17.04.1923
Efri deild: 42. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í C-deild Alþingistíðinda. (2341)

101. mál, hæstiréttur

Frsm. (Jón Magnússon):

Jeg sje enn eigi ástæðu til að segja mikið. Jeg fæ eigi sjeð annað en að nál. hafi verið nægilega ljóst. Nefndinni datt eigi í hug að minka hæstarjett, eins og háttv. 5. landsk. þm. (JJ) komst að orði. Nei, minka vil jeg á engan hátt hæstarjett. Hitt er annað mál, að til mála getur komið að fækka dómendum með einhverjum tryggingum. Að öðru leyti tel jeg eigi svo langt á milli okkar hv. 5. landsk. þm. (JJ) í máli þessu. Tók jeg eftir því, að hv. þm. gat þess við 1. umr., að komið gæti til mála að miðstig þyrfti ekki að kosta svo ýkja mikið. Jeg get jafnvel hugsað mjer að spara mætti á öllu saman. Ef dómendum hæstarjettar yrði fækkað niður í 3, þá er eigi vist að þyrfti að vera nema sem svarar 11/2 manni í miðstiginu. En jeg vil eigi fækka hæstarjettardómendunum eða fara að breyta hæstarjetti fyr en þingið hefir komið sjer niður á því, hvort setja eigi miðdóm eða ekki. Skal jeg viðurkenna, að jeg vil heldur draga breytinguna meðan jeg er eigi sannfærður að breytingin sje til bóta, sjerstaklega ef það hefir engan kostnað í för með sjer að draga það. Finst mjer sjálfsagt að hæstv. stjórn taki þá ósk til greina að veita ekki embættið, ef það losnar. Jeg skal viðurkenna það, að jeg er að því leyti afturhaldssamur, að jeg vil eigi breyta neinu nema jeg sje sannfærður um að breytingin sje til bóta. Hefði verið til lítils að vera að skifta þessu þingi, ef eigi hefði verið ætlast til, að þessi hv. deild spornaði á móti fljóthugsuðum breytingum.