17.04.1923
Efri deild: 42. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í C-deild Alþingistíðinda. (2342)

101. mál, hæstiréttur

Jónas Jónsson:

Jeg er hæstv. forsrh. (SE) þakklátur fyrir yfirlýsingu hans. Tryggir hún að minsta kosti part af tilgangi mínum með frv. Er með því í bili gert nokkuð til að vinna í þá átt að minka kostnaðinn við þennan æðsta dómstól vorn. En það eru fleiri hliðar viðvíkjandi hæstarjetti, sem ekki er minni þörf á að spara en mannahald, en það er málafærslan. Hefi jeg fengið upplýsingar um það atriði frá manni, sem hefir starfað við hæstarjett, og ganga þær upplýsingar töluvert lengra en þær, sem jeg hefi áður fengið. Hefir þessi hæstarjettardómari haldið því fram, að allur málarekstur sje nú miklu dýrari en hann þyrfti að vera vegna munnlega flutningsins. Er það mjög óheppilegt að gera með því efnalitlum mönnum erfitt fyrir um sókn og vörn mála sinna. Maður sá, er jeg bygði á í fyrstu, hjelt því fram, að ef skriflegur málaflutningur yrði leyfður þar sem annar aðili óskaði þess, þá mundi það verða til þess að málaflutningurinn yrði altaf skriflegur. Hæstarjettardómarinn sagði aftur, að ef málaflutningurinn væri eigi altaf skriflegur, þá þyrfti ritara eftir sem áður. Það minsta, sem hv. nefnd gat gert, var að breyta frv. eftir því, sem reynslan hefir leitt í ljós að er betra. Er það alls eigi lítilsvert fyrir þjóðina, hversu dýr þessi æðsti dómstóll er landssjóði, og þeim einstaklingum, sem njóta eiga verndar hans, miðað við afl hennar. Er með þessum dýrleika töluverður hluti landsmanna útilokaður frá því að geta leitað rjettar síns. Er jeg eigi eins ánægður með þetta ástand og hv. 4. landsk. þm. (JM). Tel jeg sjálfsagt að breyta þeim göllum á þjóðfjelagsskipuninni, sem eru þjóðinni til óhags. Þó álít jeg betra að vísa málinu til hæstv. stjórnar en að fella það. Er þá að minsta kosti meira útlit fyrir, að rannsókn á málinu verði haldið áfram. Helst hefði jeg þó kosið að málinu hefði verið vísað til 3. umr. og þá komið fram brtt. um að málaflutningurinn skyldi vera skriflegur. Mun jeg greiða atkvæði á móti dagskránni, þó að hún í sjálfu sjer sje eigi frágangssök, en þar sem hæstv. forsrh. (SE) er mótfallinn breytingunni á hæstarjetti, þá er mjer vitanlega ekkert um það, að vísa málinu til hans.

Það er satt, sem hv. 4. landsk. þm. (JM) tók fram, að jeg sagði við 1. umr., að vel gæti komið til mála að hafa miðstig, ef það yrði eigi of dýrt, t. d. ef kennarar lagadeildarinnar störfuðu þar án mikillar aukaþóknunar. Held jeg að það skifti þjóðina, sem er aðeins tæp 100 þúsund manns, mjög miklu, hve dýr hæstirjettur er. Í Bandaríkjunum, sem hafa eins margar miljónir manna sem við þúsund, voru síðasta ár fyrir stríðið aðeins 9 hæstarjettardómendur. Annaðhvort virðist vera meiri friður manna á meðal þar í landi en hjer, eða þá að þrem dómendum hjer ætti að vinnast tími til að greiða úr málum okkar, sem eru tiltölulega fá, miðað við þessa 9 dómendur stærstu þjóðar heimsins.

Jeg skal játa það, að það er meiningarlaust að vera að spara á hæstarjetti einum, en einhversstaðar verður að byrja og þetta er ein yngsta þjóðarstofnun vor, en ber þjóðina sýnilega ofurliði.