17.04.1923
Efri deild: 42. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í C-deild Alþingistíðinda. (2343)

101. mál, hæstiréttur

Frsm. (Jón Magnússon):

Jeg verð að játa það, að jeg er ekki svo vel að mjer, að jeg geti borið um, hvort hæstirjettur okkar sje dýrasti hæstirjettur í heimi. En jeg efast um það. Hann er ekki tiltölulega dýr, þegar þess er gætt, að hann kemur í staðinn fyrir 2 dómstig. Það er mjög villandi hjá háttv. 5. landsk. þm. (JJ) að gera samanburð á dómurum í hæstarjetti í löndunum eftir því, hvort þau eru stór eða smá. Það þarf ekki því fleiri dómendur sem landið er stærra. Það er bæði satt og ekki satt, að í smærri löndum komi fyrir auðveldari spursmál. Flókin viðfangsefni koma fyrir hjer sem annarsstaðar. Ef maður blaðar í dómasöfnum hinna stærri landa og ber það saman við dómasafnið hjer, þá sjest, að hjer koma fyrir margar sömu spurningar sem þar, sjerstaklega á atvinnu- og verslunarsviðinu. Það er ekki von að háttv. flm. viti þetta. Þeir, sem hafa fengist nokkuð við slík efni, eru honum náttúrlega kunnugri um það. Það er satt, að munnlegi málaflutningurinn er dýr, en hann er ekki tiltölulega dýrari hjer en annarsstaðar. Jeg er ekki alveg frá því, að taka megi upp skriflegan málaflutning, en upp á slíku má ekki fitja fyr en gagngerð breyting er gerð á allri dómaskipuninni. Maður getur ekki altaf verið að hringla með smábreytingar á æðsta dómstóli landsins. Það var ekki eðlilegt, að nefndin gerði breytingu á þessu frv. Því að hún vildi ekki að það næði fram að ganga á þessu þingi. Hvernig frv. yrði breytt, fer eftir því, hvort fallist væri á að hafa miðstig eða ekki. En ef miðstig verður haft, þarf að breyta lögunum mikið. Það er ekki ástæða til þess að fjölyrða meir um þetta. Jeg vona að allir deildarmenn hafi gert sjer ljósa grein fyrir máli þessu, og vænti þess, að þeir samþykki dagskrána.