01.03.1923
Neðri deild: 9. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í C-deild Alþingistíðinda. (2349)

31. mál, gjaldeyrislántaka

Jón Baldvinsson:

Í tilefni af samanburði hv. flm. (JakM) á frv. og tillögu minni, skal jeg geta þess, að það er rjett, að hjer er fullkomin heimild fyrir ríkisstjórnina til lántöku, sem ekki er í þáltill. Jeg skal ekki segja nema jeg geti verið þessari lántöku samþykkur, þó að jeg ætli, að til hennar þurfi ekki að koma. Meðal annars er sú ástæða til þess, að jeg kom ekki fram með lánsheimild, að jeg hygg megnið af þessum lausu skuldum vera í Íslandsbanka. En á fjölmennum fundi síðastliðið haust heyrði jeg einn bankastjórann í Íslandsbanka lýsa yfir, að gefnu tilefni, að bankinn þyrfti engan stuðning af stjórnarinnar hálfu. Þetta er þó ekki allskostar rjett, því að stjórnin hefir stutt og styður bankann, t. d. með breska láninu. Getur vel verið, að bankastjórinn hafi átt við, að bankinn þyrfti engan slíkan stuðning framvegis, og þá ekki lántöku til að koma fyrir þessum lausu skuldum. En hvor leiðin sem farin verður, tel jeg rjett, að þessu frv. verði vísað til nefndar.