05.05.1923
Neðri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í C-deild Alþingistíðinda. (2356)

31. mál, gjaldeyrislántaka

Jakob Möller. Ástæðan til þess, að jeg hefi skrifað undir nefndarálitið „með fyrirvara“, er sú, að hjer er í raun og veru um svo óvenjulega meðferð máls að ræða. Ef dagskrártill. nær fram að ganga, þá er frv. að efninu til samþykt, þó að það sje formlega felt. Stjórninni er þá ætluð heimild til að taka gjaldeyrislán. Í nál. er lögð áhersla á, að stjórnin geri ráðstafanir til að stöðva gengi krónunnar og hækka það; og hv. frsm. (MG) hefir einnig árjettað það mjög ákveðið í framsögu sinni. Komi fram sterkar líkur fyrir því, að gengið falli, þá hefir stjórnin því heimild og skyldu til að taka gjaldeyrislán það, sem í frv. var farið fram á heimild til. Því get jeg vel sætt mig við þessa meðferð á málinu.