07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í C-deild Alþingistíðinda. (2366)

78. mál, lærði skólinn

Frsm. minni hl. (Gunnar Sigurðsson):

Jeg get strax viðurkent það, og enda látið það áður í ljós, að jeg hefði helst kosið, að mál þetta hefði dagað uppi í nefndinni. Eins og nál. minni hlutans ber með sjer, þá erum vjer því algerlega mótfallnir, að frv. nái fram að ganga, og ber margt til þess.

Fyrst og fremst er oss ljóst, að alt hringl í skólalöggjöfinni sje mjög óheppilegt og ekki hvað síst, þegar um skóla sem þennan er að ræða. Breytingin, sem á honum var gerð 1905, var bygð á óánægju nemenda og kennara með fyrirkomulag hans. Þeir fundu, að það var úrelt orðið og að samræma þurfti það við kröfur hins nýja tíma. Málið var rætt ítarlega á þingi og er fróðlegt að heyra álit margra menta- og fræðimanna um málið. T. d. segir prófessor Valtýr Guðmundsson í umræðum um kenslu í lærða skólanum árið 1903: „Forntungnanámið hefir legið nógu lengi sem mara yfir oss. Við höfum lifað nógu lengi í fornöldinni, grískan og fornfræðin hafa setið nógu lengi í fyrirrúmi fyrir því, sem nauðsynlegt hefir verið fyrir lifið; af því höfum við orðið svo ópraktískir, en aukin kensla í náttúruvísindum mundi gera menn betur hæfa til að ganga út í baráttu lífsins en þá, sem alt af lifa í fornöldinni.“ Hallgrímur Sveinsson biskup segir meðal annars: „Lífið heimtar meiri praktiska þekkingu og til þess að fá hana, verður gríska og latína að rýma.“

Jeg vil sjerstaklega brýna það fyrir mönnum, hvað öll skilyrði eru breytt nú, frá því er latínan var aðalnámsgreinin í skóla. Þá mátti hann nær eingöngu teljast undirbúningsskóli fyrir presta, en þá voru flest vísindarit og guðfræðirit á latneskri tungu. En á síðari tímum hefir þetta tekið stórvægilegum breytingum. Vísindagreinunum hefir fjölgað og farið mjög fram, svo sem t. d. er um náttúruvísindi, og við aukna viðkynningu þjóðanna og hraðari og betri samgöngur hafa menn sjeð, að gömlu málin verða að þoka fyrir hinum nýju, lifandi málunum. Nú eru þannig sárafáar kenslubækur á latínu, í stað þess að áður voru þær það flestar, og menn eru ekki lengur bundnir við að semja doktorsritgerðir sínar á því máli, svo sem venjan var fyrrum. Þannig mætti lengi telja. Stórt atriði er það í þessu máli, að okkar skólafyrirkomulag er sniðið eftir og í samræmi við það skólafyrirkomulag, sem nú er um öll Norðurlönd. Um tvískifting skólans í mála- og náttúrufræðisdeild skal jeg ekki vera fjölorður. Slík skifting viðgengst alstaðar á Norðurlöndum og þykir hafa reynst vel, enda er hún eðlileg og sjálfsögð, þar sein vitanlega eru altaf sumir nemendur, sem sjerstaklega hneigjast að málum, og aðrir að stærðfræði og náttúrufræði. Er þá tvískiftingin sýnilega hagræði fyrir þá.

Þá hafa alloft heyrst raddir um það, að stúdentar, sem lært hafa undir nýja fyrirkomulaginu, væru ver þroskaðir, en þeir sem áður voru. Jeg leyfi mjer nú að efast um að svo sje, þó stúdentar sjeu nú yfirleitt yngri en áður voru þeir. Jeg get fúslega viðurkent, að latína hafi þroskavænleg áhrif á nemendur, en svo er um fleira nám, t. d. íslensku og stærðfræði. íslenska er, frá málfræðilegu sjónarmiði sjeð, ekki ljettari en latínan og vel til þess fallin að þroska og skýra hugsunina. Og kynlega kemur það manni fyrir sjónir, að þeir menn, sem hæst láta um allar þjóðerniskröfur, skuli taka Livius fram yfir Snorra. Jeg er ekki að gera latínunni neitt lágt undir höfði, en til eru menn, sem við að nema hana hafa orðið að andlegum öfugsnáðum, ef svo mætti að orði komast; þeir hafa snúið sjer frá því, sem nauðsynlegt var fyrir lífið, og orðið fyrir vikið harla snauðir að hagnýtri þekkingu.

Þá vildi jeg minna á það, hversu óheppilegt það væri að fara að hafa latínu sem inntökuskilyrði. Það er engin ástæða til að gera hana að nokkurskonar grýlu á nemendur, sem fæli þá frá skólanum, enda hæpið að nú sje völ jafngóðra latínukennara og áður. Jeg var í skólanum á tímamótunum, og get sagt það, að ekki munaði ýkja miklu á latínukunnáttu yngri og eldri stúdenta, enda flestir lagt latínuna á hilluna áð skólaverunni lokinni. Og það getur ekki haft góð áhrif á óþroskaða unglinga, að binda þá við latínunám, jafnörðugt og það er; virðist öllu heppilegra, að þeir fái fyrst einhverja nasasjón af þeirri almennu undirbúningsmentun, sein er betur í hæfi við þroska þeirra.

Að lokum teljum vjer ekki til fullnustu enn lokið undirbúningi mentamála vorra, en stjórnin mun hins vegar hafa í huga að taka þau til yfirvegunar svo fljótt sem auðið er. Það sýnist því lítil ástæða til þess að fara nú að taka þennan eina skóla fyrir. Fyrir þessar sakir allar höfum vjer lagt til, að frv. verði afgreitt með rökstuddri dagskrá.