07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í C-deild Alþingistíðinda. (2367)

78. mál, lærði skólinn

Bjarni Jónsson:

Það er svo að sjá sem hv. þm. sjeu æði óspakir orðnir og farnir að slá slöku við þingstörfin, þegar framsögumenn í málunum, auk heldur aðra þm., vantar á fundi. Jeg er þó svo heppinn að geta verið viðstaddur umræðurnar og hleyp því í skörðin fyrir hv. frsm. meiri hlutans (SSt). Vil jeg þá byrja mál mitt með því að þakka hv. 1. þm. Rang. (GunnS) fyrir hans ágætu ræðu og dást að hans miklu og ítarlegu þekkingu á skólamálum! Það kom fram í ræðu hans, að breytingin, sem á varð skólanum 1905, hefði verið sprottin af óánægju kennara og nemenda með þáverandi fyrirkomulag. En þetta er ekki rjett, og engin slík óánægja átti sjer stað. En Jón Jacobson hjelt ræðu á þingi 1893 á móti latínunámi, svo sem var mikill síður orðinn, og þar sem bæði Norðmenn og Danir höfðu þá skemt sína skóla á sama hátt, þá þurftum vjer Íslendingar auðvitað að herma það eftir eins og fylgispöku lömbin. En nú er það sannfæring manna á Norðurlöndum, að breytingin á skólunum hafi verið til ills eins, og munu áður en langt um liður færa þá í þeirra fyrra horf. Þá skírskotaði hv. þm. (GunnS) til ræðu eftir próf. Valtý Guðmundsson, er hann talar um, að vjer sjeum ekki eins hagsýnir eða „praktiskir“ (hann sagði það víst á grísku) eins og aðrar þjóðir, og lifðum mest í fornöldinni. Virtist sem hann kendi það of miklu latínunámi. En þar er því að svara, að vjer Íslendingar höfum ekki verið einir um það, að hafa hugann við fornöldina, og er skemst frá því að segja, að ekki hafa þjóðverjar sýnt sig öðrum þjóðum ófærari að standast strauminn í lífsbaráttunni, nje heldur hafa þeir á stríðstímum lifað í tómum fornaldardraumum, og er þó mikil stund lögð á grísku og latínu í skólum þeirra. Ætti þá latínan ekki að hafa skemt svo mjög fyrir þeim. Það mun sannast, að þetta eru gömul, dönsk slagorð, margtuggin og úrelt. Sama er um það að segja, er Hallgrímur biskup Sveinsson telur latínu og grísku eiga að rýma fyrir „praktiskunni“! Má það kynlegt vera, ef þeir eru að öðru jöfnu hagsýnni, sem ekki kunna að hugsa rjett, en þeir, sem það hefir verið kent.

Jeg hefi heldur ekki orðið var við það, að hinir yngri menn væru yfirleitt hagsýnni en þeir eldri. Jeg býst við það sje upp og niður um hvorutveggju, og munu menn geta sannfærst um það, þó ekki væri með öðru en því, að svipast dálítið um á þingbekkjunum.

Hv. þm. (GunnS) talaði mikið um það, að gott væri að kunna meira í náttúrufræði og kenna þau fræði meira en áður var. Þetta er alveg rjett og væri mjög æskilegt. En hver leggur fram fje til þess að gera slíka kenslu svo úr garði, að hún komi að nægum notum og geri sama gagn að sínu leyti og hægt er að fá á annan hátt? Því það er vitanlega gagnslítið, að sitja inni í ofnheitu herbergi einn vikudag og lesa grasafræði í bók, eða læra efnafræðisetningar utan að, ef ekki fylgir sú sjálfsraun og sjálfssjón, sem nauðsynleg er og óhjákvæmileg. Annars mun ekki vera meiri náttúrufræðikensla nú í skólanum en áður var, að minsta kosti er hún ekki orðin nein aðalgrein í skólanum. Og það er einmitt það hættulega fyrir skólann og þroska nemenda, að engin þungamiðja, engin aðalnámsgrein er nú til, síðan latínan fór. En hún var slík þungamiðja námsins, og því er rjett að taka hana upp aftur, ásamt íslensku, sem aðalnámsgrein, enda margra mannsaldra kenslureynsla í henni, auk þess sem engan aukakostnað þarf þá að hafa, eins og mundi verða t. d. með náttúrufræðinni, þar sem það er alveg undir högg að sækja, hvort tilraunir með hana yrðu að gagni eða aðeins kák og fálm. Annars er það einn megingalli skólans, að námsgreinarnar þar eru of margar. Hv. frsm. minni hl. (GunnS) var að tala um það, að með latínunni væri nemendum íþyngt um of. Já, — þarna kemur það, þarna er því rjett lýst, nýtískuuppeldinu. Alt á að mylja niður í menn, eins og í fugla, alt á að tyggja í þá, ekkert mega þeir gera sjálfir, ekkert reyna á eigin krafta eða auka skilningsgleði sjálfra sin.

Hv. þm. (GunnS) var einnig að tala um það, að jeg hefði viljað afnema stærðfræðideildina. Jeg þarf ekki að svara slíku; allir, sem lesið hafa frv. mitt, vita, að þar var þvert á móti skýrt og greinilega gert ráð fyrir þessari deild, bæði í 2. og 3. gr.

Þá ætla jeg loks aðeins að minnast á það, sem hann sagði, að latínan ætti að vera grýla á þá, sem ætluðu að ganga inn í skólann. Jeg veit ekki. Það má vera, að slíkt fæli einhverja frá. En jeg held, að undir flestum kringumstæðum sje lítil eftirsjá að þeim, það eru þá annaðhvort menn, sem ekki vilja mikið á sig leggja, eða þá ekki svo gáfum búnir, að þeir geti átt við þetta. Og það er betra að hafa fáa nemendur og góða en marga og ljelega, þó auðvitað saki ekki að hafa þá marga, ef þeir eru jafnframt góðir. Í þessu sambandi vil jeg líka vekja athygli á því gildi, sem heimiliskenslan undir skóla hefir haft og mun hafa. Það eru ekki litlar eða ómerkar menningarstöðvar, t. d. prestsetrin, þar sem 2–10 unglingar voru í senn að læra undir skóla. Að þessu var beinn menningarlegur gróði fyrir sveitirnar, og væri óbætandi, ef það legðist niður. Annars sje jeg nú, að hv. frsm. meiri hl. (SSt) er sjálfur kominn, og mun hann þá taka við og sýna betur fram á nauðsyn þessa máls en jeg hefi gert.