07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í C-deild Alþingistíðinda. (2368)

78. mál, lærði skólinn

Frsm. meiri hl. (Sigurður Stefánsson):

Af óviðráðanlegum og óvæntum atvikum gat jeg ekki komið á rjettum tíma, og bið afsökunar á því, um leið og jeg leyfi mjer að snúa mjer að málinu sjálfu. Mál þetta er ekki nýr gestur, en jeg þarf ekki að rekja sögu þess. Þeir eru margir, sem álíta, að spor hafi verið stigið aftur á bak með skólabreytingunni og afnámi lærða skólans í hinni gömlu mynd. Reynslan hefir líka sýnt þetta. Fjárhagshlið málsins, sem jeg skal fyrst snúa mjer að, hefir líka sýnt þetta. Þetta nýja skipulag hefir valdið slíku aðstreymi að skólanum, að hann er nú alveg að rifna utan af því. Breytingin, sem nefndin leggur til, eða meiri hl. hennar, mundi hafa mjög mikinn sparnað í för með sjer, svo hundruðum þúsunda skifti, bæði í kennarahaldi, sparnaði á byggingarkostnaði, o. fl. Því með því áframhaldi, sem nú en á aðstreymi að skólanum, mundi óhjákvæmilegt að stækka skólahúsið að mun. En það er full ástæða til þess að líta einnig á þetta atriði, þar sem svo margar nauðsynjaframkvæmdir verða að bíða, einmitt vegna fjárskorts.

Um skólann sjálfan nú mætti kannske segja það, að einna mest þörf væri á því, að menn mintust þess, sem hinir gömlu latínumenn sögðu: ekki margt, en mikið. En skólinn fer nú alveg öfuga leið, hefir margt, en ekki mikið. Og það er þetta, sem á að leiðrjettta með skipulagsbreytingunni. Með henni fæst fastur miðdepill í námið og meiri festa en nú er, og þar með meiri þroski nemendum og meiri árangur skólaverunnar. Það má vel vera, að þetta takmarki nokkuð aðstreymið að skólanum, og er ekki nema gott eitt við því að segja, að mörgu leyti, því ýmsir telja nú mjög mikið áhyggju- og alvörumál, hvað margir ganga þessa braut og hvað auðvelt er að ganga hana. En of mikil stúdentaframleiðsla, eða of miklar mentaskólagöngur, hafa annarsstaðar skapað sjerstaka stjett manna, ef svo mætti segja, sem enginn akkur væri í að fá fjölmenna hjer, s. s. hinn svonefnda andlega eða lærða öreigalýð. Það eru menn, sem eytt hafa bestu árum æfi sinnar í bóknám, en fá ekkert við slíkt að starfa, en eru orðnir lítt færir til annara starfa, eða fráhverfir þeim og flosna svo einhvern veginn upp.

Jeg er ekki að segja þetta til að áfellast þessa ólánsmenn, heldur aðeins til að benda á dæmið.

Háttv. þm. Dala. (BJ) mintist á hina mörgu og merkilegu heimaskóla, sem verið hefðu úti um sveitirnar, þar sem æskumennirnir lærðu undir skóla. Þar var síst of mikið gert úr menningargildi þessarar starfsemi, því þar var ekki einungis kend latína, heldur allar aðrar námsgreinar, sem til skólans heyrðu, þó latínan væri aðalatriðið. Jeg veit það um sjálfan mig, að þó jeg kæmi gamall í skóla og ætti erfitt með latínuna fyrst í stað, þá hefi jeg ekki haft eins gott af neinu öðru námi mínu og því, fyrir líf mitt eftir á. Út af því, sem menn hafa verið að lasta latínuna hjer, vil jeg líka stuttlega minna á það, án þess að lasta nokkuð hina nýmóðins mentun, að hinir gömlu latínumenn gátu þó, þegar mentaða erlenda menn bar að garði, talað við þá um öll efni á þessu máli.

Jeg hefi talað um beinan peningasparnað, en það er einnig annað atriði, sem er mikilsvert, og það eru heimavistirnar. Eins og nú er ástatt, er ómögulegt að koma við heimavistum við skólann, sökum þrengsla. En ef skólanum yrði breytt í latínuskóla, eins og frv. fer fram á, þá mundi rýmkast svo til, að hægt yrði að veita fátækustu piltum utan af landi heimavist, og eins og nú er ástatt hjer í Reykjavík, og búast má við að verði áfram, þá mundi verða að þessu mikill sparnaður. Það er og á að vera markmið hvers skóla, að veita nemendum sem bestan undirbúning undir lífið og gera þá hæfari til sjálfsbjörgunar, þegar út í það er komið. En engin námsgrein og ekkert nám þroskar meira og eflir anda nemendanna en latínunámið.

Mjer stendur alveg á sama, þótt einhverjir kalli þetta úreltan hugsunarhátt, sem ekki komi vel heim við kröfur nútímans. En kröfur nútíðarinnar og framtíðarinnar verða þær, að fá sem hæfasta og best mentaða stúdenta, og besta ráðið til þess er að auka latínukensluna.

Með þessu frv. er þó ekki farið eins langt og áður var viðvíkjandi forntungnanáminu. Áður var gríska kend í latínuskólanum, en hjer er henni alveg slept. Gæti jeg vel gengið inn á að kend yrðu undirstöðuatriði í grískri tungu við skólann, en þar sem hún er nú kend við háskólann, er þó minni þörf á því. Og á þessari fornmenta-fjandskapar-öld, mun gagnslaust að fara fram á það, og mun jeg ekki gera það nú, heldur aðeins leggja til, að latínutímunum verði fjölgað.

Meiri hlutinn hefir litla breytingu gert á frv. Það er að mestu sniðið eftir því, sem þeir Guðmundur Finnbogason prófessor og sjera Sig. P. Sívertsen hafa lagt til, eftir að þeir höfðu athugað skipulag mentaskólans. Þó er það skilyrði hjer sett fyrir inntöku í skólann, að nemandinn hafi nokkra kunnáttu í latínu.

Jeg sje, að hv. minni hl. hefir endað mál sitt með rökstuddri dagskrá um að málinu verði vísað til stjórnarinnar. Hefi jeg ekkert sjerstakt við því að segja, og mun ekki setja mig á móti því, því þetta mál getur vart gengið fram á þessu þingi, sökum þess, hve áliðið er þingtímans. Tel jeg rjettmætt, að ýtt verði við hæstv. stjórn í þessu máli, og geri jeg ráð fyrir, að hæstv. kenslumálaráðherra muni taka eins vel í það og með rökstuddu dagskrána viðvíkjandi mentaskóla á Norðurlandi. Annars hefi jeg ekki haft tœkifæri til þess að bera mig saman við mentnm. um þetta atriði, og er það því aðeins mín skoðun, sem jeg ber fram um það. Mundi meiri hl. að sjálfsögðu hafa verið á móti henni, ef von hefði verið um það, að frv. hefði getað gengið í gegn á þessu þingi. En þar sem það stendur í dagskránni, að stjórnin skuli leggja tillögur fyrir næsta þing um skólamálin, þá hefir hún enga afsökun gagnvart þinginu, geri hún það ekki. Sökum þess, hve mikið er nú að gera, en tími naumur, læt jeg lokið ræðu minni að sinni.