07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í C-deild Alþingistíðinda. (2370)

78. mál, lærði skólinn

Bjarni Jónsson:

Síðustu orð þessa mælskumanns, sem seinast talaði, að mitt kjörorð eigi að vera „Ísland fyrir Reykjavík“, þau sýna best innræti hans, uppeldi og gáfnafar. Þetta er svo hæfilega illgjarnt, og illa sagt, að engin skepna á jarðríki gæti gert nokkuð með það. (ÞorstJ: Við sjáum til, hvernig fer með frv.). Það er nú orðið úrelt hjer í deildinni, að fella mál, aðeins eftir þeim ræðum, sem um þau eru haldnar. En þar næst kemur til kasta þjóðarinnar, að kveða upp sinn dóm um málin.

Frv. mitt leiðir það af sjer, að Reykjavík missir sinn framhaldsbarnaskóla, en það tel jeg mentaskólann vera nú, og þá gilda ekki síðustu öfugmæli hv. þm. (ÞorstJ) í minn garð; þau lýsa aðeins illgirni og heimsku hans sjálfs.

Háttv. þm. spurði hverjir vildu þessa breytingu aðallega á skólanum. Þeir, sem hafa vit á málinu. (þorstJ: Hverjir eru það?). Það skal þm. fá að heyra. Hitt eru fráfæringar.

Þá kem jeg að þeim margnefnda sparnaði, sem á að vera svo stórt atriði hjer á Alþingi; það er að segja sönnum sparnaði. Næsta ár verða væntanlega 15 bekkir í mentaskólanum, og verður því að leigja húspláss handa honum utan skólans. Til þess að kenna þessum sæg þarf 26 kennara; en í nýja skólanum, ef breytt væri til eftir mínu frv., mætti vel komast af með 10 kennara. 16 bekkja skóla þarf að minsta kosti 9 kennara, eins og hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) hefir áður sagt og sannað, en hv. 1. þm. N.-M. (ÞorstJ) hvorki vildi taka rjett eftir nje skilja. Frá því, sem hann vill vera láta, ef reistur yrði mentaskóli á Akureyri og haldið áfram að kenna öllum börnum í Rvík á landsins kostnað í mentaskólanum, eins og hann er nú, frá því, segi jeg, mætti spara 21 kennaraembætti fyrir alt landið. Og það yrði hreint ekki svo smávægileg upphæð. Auk þess, sem gera má ráð fyrir, að altaf bætist við skólann hjer, og eftir því verður meira gert fyrir Reykvíkinga, þegar þessi framhaldsbarnaskóli er látinn stækka ár frá ári. Jeg veit vel, að það þarf ekki að bregða þessum hv. þm. um nísku í fjárveitingum, en aðrir af þeim, sem fylgdu honum um mentaskólann á Norðurl., vilja telja sig sparnaðarmenn.

Nú hefi jeg sýnt fram á, að spara má 21 kennaraembætti í landinu, ef hlýtt er mínum tillögum en ekki farið að ráðum hv. 1. þm. N.-M. (ÞorstJ). Það eru 16 hjer í Reykjavík og 5 á Akureyri, sem hann ætlaðist til að þar yrðu stofnuð.

Það er sennilegt, að jeg deili ekki lengur við þennan hv. þm. (ÞorstJ) um skólamál; og hirði jeg ekki, þó að gusurnar gangi honum upp yfir höfuð, þar sem hann fer á sínum hundavaðsvegleysum.