07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í C-deild Alþingistíðinda. (2371)

78. mál, lærði skólinn

Frsm. minni hl. (Gunnar Sigurðsson):

* Jeg þarf ekki að tala langt mál. Hv. flm. (BJ) var nokkuð æstur og stórorður í ræðu sinni, en vantaði öll rök fyrir sínu máli; og þess vegna get jeg verið enn stuttorðari. Hann sagði, að mikil óánægja væri á Norðurlandi út af mentaskólamálinu. Það er ekkert nýtt; hún hefir altaf verið þar ríkjandi. Og það má hann vita, að ekki verður það breyting til batnaðar, að taka upp latínuna aftur, sem grundvallarinntökuskilyrði í mentaskólann; það verður aldrei framkvæmt. Þó að sú breyting yrði samþykt nú, þá yrði hún afnumin á næsta þingi, af því að yngri stúdentar eru yfirleitt á móti henni, og mundu krefjast þess, að hún yrði þá afturkölluð.

Hv. flm. (BJ) talaði mikið um, að latínan þroskaði menn og kendi þeim að hugsa rjett; en jeg hygg, að hún geti aldrei gert grautarhöfuð að skýrum mönnum.

Það eru líka til aðrar námsgreinir, sem hafa sömu skilyrði til þess að þroska nemendur, t. d. íslenska og stærðfræði, og mætti vissulega kenna þær á sama hátt og latínuna áður.

Fyrir 1905 var mikil óánægja með ástandið í lærða skólanum; þá voru gamlir skólamenn á móti latínunni, og flestallir vildu þá breytingu, sem nú hefir ríkt í skólanum síðan. Þetta er ný alda nú. Það er ekki rjett hjá hv. fhn. (BJ), að ekki sje hægt að kenna nægilega vel náttúrufræði í skólanum; hún er kend með fullkomnum myndum, og grasafræðin t. d. með athugunum á ísl. náttúrunni.

Það er heldur ekki rjett hjá hv. fhn., að ekki sje lögð sjerstök áhersla á eina námsgrein; það er einmitt gert um enskuna í gegnum allan skólann, og allir yngri stúdentar eru vel að sjer í ensku. Enda kemur hún þeim að meiri og betri notum en latínan.

Annars fór hv. flm. (BJ) mest með slagorð, t. d. að kenslan í skólanum væri „kák“ og „fálm“, og er ekki hægt að kalla það hól fyrir kennarana. Ef námsgreinarnar eru of margar, þá mætti ef til vill fækka þeim og koma fram lagfæringum í einstökum atriðum.

Háttv. fhn. (BJ) hneykslaðist á því, að jeg vildi ekki láta kenna börnum latínu, og taldi mjög erfitt að byrja á að kenna unglingum hana undir skóla. Enda má nú segja um latínuna, að hún veslaðist upp, eftir að hún misti samband sitt við vöndinn.

Það hefir verið tekið fram af hv. 1. þm. N.-M. (ÞorstJ), að mótstaðan gegn þessu frv. stafar frá þeim, sem eru yngri í anda. En af því að við, sem alist höfum upp við og fylgjum núverandi skipulagi skólans, erum yngri en fylgismenn eldra skipulagsins, þá erum við ef til vill þess vegna ekki eins þroskaðir enn þá. En það hefir þó heldur ekki nema einn háskólakennari lýst óánægju sinni á mentaskólanum og þroskaleysi yngri stúdenta.

Háttv. flm. (BJ) var að bera mjer á brýn þroskaleysi og skort á dómgreind; það má vel vera, að hann hafi ástæðu til þess öðrum fremur, af því að jeg var einu sinni það barn, að gefa út úrval úr ljóðum hans.

Hv. frsm. meiri hl. (SSt) gerði ekki eins mikið úr ágreiningnum milli meiri og minni hluta nefndarinnar og háttv. flm. (BJ), enda tók hann miklu vægara á málinu. Háttv. frsm. (SSt) þótti ekki ugglaus sá mikli munur á sparnaðinum, ef mentaskólanum yrði breytt, úr því að Reykjavík yrði að kosta nýjan gagnfræðaskóla.

Hann tók það fram, að framleiðsla á stúdentum væri alt of mikil. Það getur satt verið, en það má draga mikið úr henni með því að þyngja inntökuskilyrðin í skólanum, með öðrum kröfum til nýsveina en latínuþekkingar. Háttv. frsm. (SSt) óskar eftir breytingu á fyrirkomulagi skólans samkv. frv. En jeg óska eftir, að núverandi skipulag haldist; þó að jeg álíti hins vegar, að þörf sje að gera á því smábreytingar, — t. d. herða á skilyrðum til inntöku- og gagnfræðaprófs.

*)Ræða þessi er óyfirlesin af þm.