07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í C-deild Alþingistíðinda. (2377)

78. mál, lærði skólinn

Þorsteinn Jónsson:

Jeg ætla aðeins að bera af mjer sakir. Það litur út fyrir, að hv. þm. Dala. (BJ) telji sig hafa einkaleyfi til þess að ausa auri um deildina og níða einstaka þm., og heimta svo á eftir, að þeim sje varnað máls til andsvara. Það er miður drengilegt, þegar hann er búinn að nota þinghelgina til að segja það, sem ella varðar við lög. Háttv. þm. (BJ) var að brigsla mjer um ilt uppeldi. En jeg hygg, að orðstír hans muni ekki aukast við það, þó hann reyni að óvirða mína foreldra, hjer í þingsalnum, því að þau ólu mig upp. Enda þótt jeg búist við, að hann hafi sjálfur fengið gott uppeldi, þá ber þessi framkoma hans ekki vott um það. Því meira, sem hann þykist af uppeldi sínu og mentun, því minni sæmd hefir hann af því, hvernig hann hegðar sjer hjer í umræðunum og notar þinghelgina, bæði nú á þessum fundi og fyrir nokkrum dögum, þegar hann rjeðst á störf nýlátins merkismanns. (BJ: Þingmaðurinn er enn farinn að sjá afturgöngur!) Jeg ætla ekki að bregða háttv. þm. (BJ) um skort á viti, og álít, að hann hafi töluvert af því; enda leynir það sjer ekki, að hann þykist jafnan vita best sjálfur, hver vitmaður hann sje. Ánægja hans með sjálfan sig er nokkurn veginn takmarkalaus, eins og kunnugt er.

Þá hefir þessi háttv. þm. ekki hlotið neinn „hundavaðslærdóm“, eins og hann var að bregða mjer um. En hvernig notar hann sitt vit og sinn lærdóm? Hefir það orðið til mikilla nytja fyrir þjóðina? Hvað hafa störf hans kostað þjóðfjelagið og hver er árangurinn?

Jeg sagði ekkert ilt um háttv. þm. (BJ) í fyrri ræðu minni, en benti aðeins á, að kjörorðið: „Ísland fyrir Reykjavík“ ætti að vera kjörorð hans, eftir ræðum hans og tillögum að dæma. Og það væri ekki að ástæðulausu, þótt hann veldi sjer þetta kjörorð, því enginn þm. mun vera jafn svarinn andstæðingur allra verklegra framkvæmda í landinu, annarsstaðar en í Reykjavík. Ef leggja skal síma, þá legst hann á móti því, ef leggja skal vegi, er enginn slíkum framkvæmdum andvígari, ef byggja skal brýr, beitir hann sjer gegn því, eftir því sem hæfileikar leyfa, og ekki hvað síst á þetta við um fjárveitingar til mentamála í öðrum landshlutum en Reykjavík. En hann gæti bætt við kjörorð sitt: „Ísland fyrir Reykjavík og Reykjavík fyrir sjálfan mig!“ Hv. þm. Dala (BJ) er jafnan örlátur á alla persónulega styrki. Hefi jeg haldið, að það stafaði af góðsemi og vilja til að styrkja efnilega menn til náms. En hann mun þar sjá lengra. Hann veit, að þessir menn geta margir orðið talsvert megnugir innan skamms. Sumir jafnvel þingmenn. Sjer hann, að þeir muni þá verða líklegir til að styðja hans eiginhagsmunapólitík.