13.03.1923
Neðri deild: 19. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í B-deild Alþingistíðinda. (238)

12. mál, aðflutningsbann á áfengi

Jón Baldvinsson:

Hæstv. forsætisráðherra (SE) gefur væntanlega skýrslu um, hvað hæft sje í þessu um dönsku sprittblönduna, og ætti það að vera auðvelt, ef það er rjett, sem sagt er, að sjerstakur maður hafi það embætti á hendi að vita, hvernig vínin sjeu. (Forsrh. SE: Hver er það?) Jeg veit ekki sönnur á þessu, en hefi heyrt þessa getið. Og það hefir áður komið fram hjer í hv. deild.

Hæstv. forsrh. (SE) kvaðst ekki geta tekið tillit til, þó að bæjarstjórnir væru með ýmsar tiktúrur í þessu máli. Alþingi hafi veitt undanþágu frá bannlögunum, og þetta verði að vera samkvæmt því. En í lögunum er tekið fram, að ekki megi gera þær ráðstafanir, er geri undanþáguna að engu, en það er hvergi sagt, að ekki megi setja sterkar skorður við misbrúkun áfengis og takmarka sölu og veitingar vína. Það er sannarlega ekki krafa laganna, að þessir mörgu útsölustaðir hafa verið settir. Nægilegt hefði verið að hafa eina útsölu í Reykjavík; þá hefði lögunum verið fullnægt, og þá hefði mátt taka tillit til vilja bæjarstjórnanna.

Hv. frsm. (MJ) vjek því til mín. hvort jeg hefði talið útdrátt hans úr skýrslu sendimanns stjórnarinnar litaðan.

Jeg sagði ekkert um það, heldur átti jeg við það, að þegar gögn einhvers máls væru ekki kunn í heilu lagi, heldur einungis eftir útdrætti, sem ef til vill væri litaður, væri erfitt að gera sjer skoðun um málið. Jeg þekki ekki skýrslu herra Pjeturs Ólafssonar, og get því ekki dæmt um, hvernig útdráttur hv. frsm. (MJ) er gerður. En einmitt þess vegna er nauðsynlegt, að skýrslan sje gefin út.