12.03.1923
Neðri deild: 18. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í C-deild Alþingistíðinda. (2389)

56. mál, sveitarstjórnarlög

Sveinn Ólafsson:

Eins og háttv. flm, (SSt) tók fram, er aðalkjarni frv. sá að flytja reikningsár hreppanna til almanaksársins. Er mjer kunnugt um, að óskir hafa komið fram víðs vegar þessu viðvíkjandi, sjerstaklega úr kauptúnum landsins, þeim, sem eru sveitarfjelög fyrir sig. Ástæður þær, sem háttv. flm, (SSt) færði fyrir niðurjöfnun að vori, get jeg skilið að eigi við á Vestfjörðum og víðar, þar sem aðalvertíðin er að vetri. En þær eiga þá náttúrlega miður við í þeim landshlutum, sem vertíð eiga að vori og sumri. Líklega getur ekki sami tími átt við alstaðar, en heimild til aukaniðurjöfnunar að hausti ætti að geta bætt úr því,

Jeg skal taka það fram, að jeg hafði einmitt í smiðum frv., sem laut að þessu efni, um það leyti, sem þetta kom fram. Þar sem bæði frv. fara nokkuð í sömu átt, get jeg slept að láta mitt frv. koma fram, því jeg býst við, að með litlum breytingum á þessu frv. verði beggja óskum nokkurn veginn náð.

Jeg vil nú taka fram nokkuð af því, sem mjer finst máli skifta, ef sú nefnd, sem um frv. fjallar, vildi taka það til athugunar.

Jeg hafði hugsað mjer, að þessi heimild hreppsnefndanna, sem frv. nefnir, yrði bundin við leyfi hlutaðeigandi sýslunefndar. Jeg tel þetta nauðsynlegt, því auðskilið er, að það getur valdið erfiðleikum, ef sitt reikningsár er í hverjum hreppi í sömu sýslu.

Þá vil jeg benda á það, að þar sem gert er ráð fyrir, að reikningsárið fari saman við almanaksárið, þá muni ekki heppilegt, að kosning hreppsnefndar fari fram rjett á eftir niðurjöfnuninni, heldur á undan henni, að vorinu. En þá verður auðvitað að breyta 11. gr. sveitarstjórnarlaganna, enda sje jeg ekki að neitt sje því til fyrirstöðu. Það er eðlilegt, að gamla hreppsnefndin skili af sjer reikningunum áður en hún fer frá, og svo, að sú nýja taki þegar við niðurjöfnuninni, er hún er komin að.

Að lokum vil jeg taka það fram, að það hafa komið fram raddir úr nokkrum stöðum um það, að rjett væri að breyta lögunum um hreppsnefndarkosningu frá 1915, þannig, að þar væru viðhafðar hlutfallskosningar. Verð jeg að fallast á, að sú breyting sje til bóta, og gæti hún sem hægast komist að í þessu frumvarpi.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta að sinni, og býst líka við, að jeg fái tækifæri til að gera mínar athugasemdir í málinu, seinna, er nefndin tekur það til meðferðar.