27.03.1923
Neðri deild: 30. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í C-deild Alþingistíðinda. (2392)

56. mál, sveitarstjórnarlög

Sigurður Stefánsson:

Það er ekki til neins að tala mikið um þetta mál, því jeg býst við að háttv. deild verði sammála um að vísa því til stjórnarinnar til frekara undirbúnings.

Jeg tók það fram við 1. umr. þessa máls, að frv. þetta er til komið og flutt vegna tilmæla hreppsnefndarinnar í Hólshreppi. Er henni áhugamál, að þessi breyting nái, sem fyrst, fram að ganga. Jeg skal ekkert um það segja, hversu henni kann að líka dráttur sá, sem hlýtur að verða á þessu máli, ef tillaga nefndarinnar, að vísa málinu til stjórnarinnar, verður samþykt. En taki stjórnin málið til athugunar og leggi það fyrir næsta þing, mun hún sætta sig við það.

Sumt, sem háttv. nefnd telur til tormerkja á þessu máli, tel jeg að vísu ekki sjerlega þungt á metum. Um sýslunefndarfundina er það að segja, að þeir eru sjaldnast haldnir svo snemma, að hreppsreikningarnir verði ekki endurskoðaðir þess vegna. Hitt atriðið, um almanaksárið, getur orkað tvímælis, enda sá jeg það strax, að það gat valdið óþægindum, að reikningsárið væri ekki hið sama í sama sýslufjelaginu.

Þó að frv. þetta nái ekki að ganga fram á þessu þingi, mun jeg sætta mig við það, ef stjórnin tekur málið til rækilegrar meðferðar og undirbúnings undir næsta þing.