24.04.1923
Efri deild: 47. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í C-deild Alþingistíðinda. (2399)

137. mál, byggingarnefnd landsins

Frsm. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Þetta mál er ekkert stórmál, og um það lítið annað hægt að segja en það, sem stendur í nál. Í hv. Nd. er borin fram af allshn. till. til þál. um endurskoðun löggjafarinnar um málefni kaupstaðanna. Nefndin leit svo á, að rjettast væri, að þetta mál yrði aðallega tekið til athugunar í sambandi við þá endurskoðun, og að ekki væri ástæða til að taka þetta mál sjerstaklega til meðferðar.

Tilefnið til þessa frv. er mjer raunar lítið kunnugt, en þó hefir ekki svo lítið verið rætt um það í Nd. Það hefir þó mestmegnis verið frá einni hlið og ekki getið um ástæðuna fyrir því, að byggingarnefnd Reykjavíkur neitaði stjórninni um leyfi til að breyta þessu húsi. Ótti við brunahættu hafði valdið mestu um það. En annars er mjer ekki eins kunnugt málið og skyldi, og býst jeg við, að hjer sjeu aðrir, sem geta gefið meiri upplýsingar um það en jeg. Það er aðeins þetta, að nefndin álítur, að þetta mál geti beðið eftir hinni almennu endurskoðun, og leggur til, að frv. sje vísað til stjórnarinnar.