17.03.1923
Neðri deild: 22. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í C-deild Alþingistíðinda. (2408)

68. mál, gerðardómur í kaupgjaldsþrætum

Jón Baldvinsson:

Frv. það, sem hjer um ræðir, fer fjarri á að settur verði gerðardómur til að skera úr deilumálum um vinnugjald milli vinnusala og vinnuþega. Að því, sem mjer er kunnugt, hafa slíkir gerðardómar verið settir á stofn í tveim löndum, Ástralíu og Noregi, og hefir reynslan í báðum löndunum verið mjög ljeleg. Sjerstaklega hefir borið á óánægju verkamanna út af þessum gerðardómum, og þeim talið það til foráttu, að þeir gengju oftast gegn hagsmunum þeirrar stjettar. Reynslan hefir viljað verða sú, að þegar um það var að ræða, að hækka kaupgjaldið, þá fóru þessir gerðardómar sjer ofurhægt, en voru öllu hraðstigari, er hitt var á dagskrá, að lækka kaupið.

Í Noregi hafa verið settir á stofn gerðardómar til að gera um mikilvæg mál, sem snertu alt landið, svo sem verkföll, verkbönn o. fl. Þar hefir orðið sama raunin á. Þessi gerðardómur er þyrnir í augum verkamanna og halda þeir því fram líka þar, að þessi dómur gangi jafnan á hlut verkalýðsins. Hefir raunin orðið hin sama í öllum öðrum löndum, þar sem komið hefir fyrir, að skipaðir hafa verið slíkir dómar, enda berjast verkamenn um allan heim með hnúum og hnefum á móti þeim.

Í Danmörku eru ekki til aðrir gerðarómar en þeir, sem settir eru af sjálfum aðiljum til að skera úr deilum, sem rísa út af skilningi á samningum milli þeirra, og hið sama hefir einnig verið í samningi milli verkamanna og atvinnurekenda hjer. Aftur á móti eru til í Danmörku opinberir starfsmenn, svo kallaðir sáttasemjarar, sem hafa þann starfa á hendi að reyna að miðla málum í kaupdeilum milli vinnusala og vinnuþega. Þetta hefir gefist miklu betur en gerðardómarnir. Sáttasemjararnir eru jafnan fljótari til, og oft hefir það komið í ljós, að ekki þurfti nema milligöngu þeirra til þess að málið fengi aðra stefnu, sem leiddi til sátta. Þessir sáttasemjarar hafa gert mikið gagn í Danmörku, þótt þeir hafi ekki neitt úrskurðarvald. Jeg legg því til, ef setja skal lög hjer um þessi efni, að skipaðir verði slíkir sáttasemjarar, en gerðardóminum slept. Þetta hefir líka að nokkru leyti átt sjer stað hjá okkur, því þótt ekkert standi um það í lögum, þá hefir landsstjórnin stundum hlutast til um slíkar deilur. Er þar skamt að minnast prentvinnuteppunnar í vetur, sem að lokum varð stöðvuð fyrir milligöngu hæstv. stjórnar. Gæti þó verið, að sættir hefðu komist enn fljótar á, ef einhver hefði verið, sem undir eins hefði gengið á milli og leitað um sættir. Tel jeg yfirleitt alt mæla með því, að sú leið verði farin. Enda kom hv. flm. (BJ) sjálfur fram með nokkuð, sem mælti ekki allítið á móti gerðardómum, en það er, hve seinvirkir þeir eru. Og þótt þeir yrðu settir með lögum, hygg jeg ekki, að það gæti fyrirbygt verkbönn og verkföll. Ber frv. þess yfirleitt ljós merki, hve vanhugsað það er, og ætla jeg, að þingið gerði rjettast í að fella það. En jeg endurtek enn: ef þingið hins vegar vill gera eitthvað í málinu, væri hagfeldara að setja lögskipaða sáttasemjara. En annars gæti stjórnin annast þetta, er henni þætti ástæða til að blanda sjer í slík mál eða þess væri óskað.