17.03.1923
Neðri deild: 22. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í C-deild Alþingistíðinda. (2409)

68. mál, gerðardómur í kaupgjaldsþrætum

Flm. (Bjarni Jónsson):

Jeg hugsaði, að þetta frv. mitt myndi sæta miklum mótmælum af hv. 2. þm. Reykv. (JB), en nú finn jeg, að full ástæða er til að þakka honum undirtektirnar, svo hógvær sem orð hans voru og gagnleg frv.

Að vísu munu þau ekki hafa verið ætluð því til þrifa, og mátti heyra það af þeim veigalitlu mótmælin, sem slæddust með. Eitt af þessum mótmælum var það, að illa hefðu slíkir dómar reynst í Ástralíu og svo myndi hjer. En hjer eru engir Ástralíumenn. Íslendingar eru að mestu sömu ættar, en ekki afkomendur ýmist stórglæpamanna eða rembiláfra aðalsætta eins og þar á sjer stað. Hjer er ekki svo litið á, að einn sje vinnusali af guðs náð, en annar vinnukaupandi. Hjer er sami maður oft hvorttveggja, vinnuþegi gagnvart einum og vinnusali gagnvart öðrum. Það er því í raun og veru heldur broslegt, þetta tal hv. 2. þm. Reykv. (JB) um, að með þessu frv. sje fyrirfram ákveðið að gera vinnusölum órjett. En það er ekki í fyrsta sinni, sem þessi hv. þm. verður sjóndapur á það, hvað satt er og rjett, sökum þeirra skökku hugmynda, sem hann hefir um þingmannsskyldur sínar. Honum finst jafnan, að hann sje þm. þessarar einu stjettar, verkamanna. Þeirra rjett beri honum að vernda, hvað sem það kosti, en hitt komi honum ekki við, þótt rjettur annara stjetta og hagur alls landsins sje um leið fyrir borð borinn.

Jeg verð að endurtaka það, að meðferð Ástralíumanna á dómstólum sínum sannar ekkert um það, hvernig Íslendingar muni fara með sína. Jeg hygg þvert á móti, að við megum, vera fullöruggir í því efni og treysta því, að bæði verði rjett dæmt og vel haldnir dómarnir.

Hv. þm. (JB) mælti beint með frv., er hann tók að lofa málamiðlunarmennina. Kvað hann, sem satt er, að þeir hefðu vel gefist, bæði hjer og erlendis. En í 3. gr. frv. er einmitt tekið fram, að ef samninganefndunum takist ekki að leiða málið til lykta, þá skuli fá til málamiðlunarmann. Þarf jeg ekki að mæla með honum, þar sem hv. 2. þm. Reykv. (JB) hefir nú gert það svo rækilega. Fái hann ekki komið á sættum, þá fyrst kemur til kasta gerðardómsins.

Háttv. þm. sagði áðan, að þessi gerðardómur væri of flókinn og seinvirkur, og furðaði mig á því. Því á undanfarandi þingum hefir einmitt sami hv. þm. (JB) kvartað yfir því, í mín eyru, að ekki væri hægt að hafa gerðardóm, sökum þess, að hann yrði eigi hafður svo margbrotinn sem með þyrfti. (JB: Þetta er hreinn misskilningur hjá hv. þm.). Hv. þm. (JB) talar ekki svo flókna íslensku, að jeg megi ekki skilja hann. En von er til, að hann vilji vinda sig frá þeim orðum nú. Það er annars eins um þennan hv. þm. (JB) og kenjótta stúlku, sem segir, þegar hún hefir fengið það, sem hún bað um: Ekki þetta, heldur hitt. — En nú stendur svo á, að hjer er um þjóðarmál að ræða og verður hv. 2. þm. Reykv. (JB) því að afsaka, þótt keipum hans verði ekki sint. Hafa nú flokksmenn hans heyrt af áheyrendapöllunum, hve drengilega hann barðist, svo hann má vel við una sinn hlut.

Að lokum vil jeg geta þess, að mjer komu kynlega fyrir þau orð háttv. þm. (JB), að slíkur gerðardómur myndi ekki koma í veg fyrir verkföll og verkbönn. Hvort myndi þetta eiga að skiljast sem hótun um það, að lögum landsins skuli ekki hlýtt? Því víst er um það, að sje þeim hlýtt, verða hjer ekki nein verkföll eða verkbönn framar. Jeg ætla annars ekki að rekast í þessu við háttv. þm. (JB), nje baka honum önnur óþægindi út af því, sem hann hefir ofmælt, því eins og jeg tók fram áðan, skulda jeg honum þakkir fyrir ræðuna. Það var að vísu óviljandi, sem hann mælti með frv., en þó jafnvel þegið af mjer engu að síður.