13.03.1923
Neðri deild: 19. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í B-deild Alþingistíðinda. (241)

12. mál, aðflutningsbann á áfengi

Forsætisráðherra (SE):

Háttv. 1. þm. Reykv. (JakM) þótti undarlegt, að jeg skyldi fara til Kaupmannahafnar til að ganga frá þessu máli. Jeg hefi áður greint ástæðurnar til þess, að jeg ræddi málið þar, sem sje að sendiherra vor situr þar. Hann hafði verið í samningsgerðunum við Spánverja, og er því ekki óeðlilegt, að jeg vildi hafa hann með í ráðum.

Háttv. þm. sagði, að leita hefði átt álits Spánverja, hvers þeir krefðust. En hvað ætli hefði verið sagt á Alþingi, ef stjórnin hefði byrjað á nýjum samningum við Spánverja, hvernig haga skyldi vínsölu innanlands? Það hefði getað leitt til þess, að málið yrði alt tekið upp og semja þyrfti á ný frá rótum. En það hefði verið rangt af stjórninni, og þingið hefði getað áfelt hana fyrir það. Hitt var gert í samráði við þann manninn, sem mestan þátt hefir átt í samningunum. Jeg geri ráð fyrir, að jeg þurfi ekki að skýra þetta mál frekar; það er svo ljóst, að allir hljóta að skilja, sem það vilja gera.