17.03.1923
Neðri deild: 22. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í C-deild Alþingistíðinda. (2411)

68. mál, gerðardómur í kaupgjaldsþrætum

Jón Baldvinsson:

Háttv. þm. Dala. (BJ) kvað það sterk meðmæli með frv., að jeg lofaði málamiðlunarmenn. Þetta er nokkuð hæpin fullyrðing hjá háttv. þm., þar sem það er ekki þetta atriði, sem frv. leggur aðaláhersluna á, heldur gerðardómurinn. Jeg verð líka að líta svo á, að málamiðlanaákvæðin í frv. hafi minni þýðingu, þegar aðiljar vita, að þeir geta skotið málinu til fullnaðardóms. Og í þessum dómi eru meiri líkur til, að atvinnurekendurnir hafi sitt mál fram. Því að það er alstaðar viðurkent, að ráðherrar og dómarar líti yfirleitt jafnan svo á í kaupdeilumálum, að það sjeu verkamennirnir, sem eigi að bera hallann. Ef útgerð eða annar rekstur hættir að bera sig, að sögn atvinnurekenda, þá á fyrst og fremst að vera sjálfsagt að lækka kaup þeirra, en hitt gengur jafnan seinna, ef gróði verður á rekstrinum, að hækka kaupið. Það er ef til vill ekki rjett að segja, að þeir kvæði upp vísvitandi ranga dóma, en þetta mun oftast vera skoðun þeirra, og samkvæmt henni dæma þeir.

Það þýðir heldur ekkert að ætla sjer að ganga fram hjá reynslu annara þjóða, eins og hv. flm. (BJ) vildi gera láta. Hann gerði lítið úr reynslu Ástralíumanna. En jeg gat líka um Norðmenn. Af hverju vildi hv. flm. ekki minnast neitt á þá? Hann hefir máske kynokað sjer við að tala um þá í sambandi við Ástralíubúa.

Háttv. flm. (BJ) sagði, að jeg hefði áður tjáð mig mótfallinn gerðardómum, sökum þess, að ekki væru nógu mörg málsskotin. Þetta er rangminni. Jeg hefi alt af verið á móti gerðardómum, af ástæðum, sem jeg hefi greint.

Þá gat hv. flm. (BJ) ekki stilt sig um að minnast á það, á hvaða tungu jeg hefði talað. Þess var að vænta af svo lærðum manni, sem altaf talar latínu annað veifið hjer í deildinni.

Jeg vænti þess, að þótt þetta mál fari til nefndar, þá verði því samt ekki hleypt út úr deildinni. Það yrði áreiðanlega ekki til að auka frið og samvinnu í landinu, ef farið yrði að fremja ranglæti gagnvart verkalýð landsins. En reynsla annara þjóða hefir sannað, að svo yrði; og að mótstaða þeirra er á rökum bygð.