17.03.1923
Neðri deild: 22. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í C-deild Alþingistíðinda. (2412)

68. mál, gerðardómur í kaupgjaldsþrætum

Flm. (Bjarni Jónsson):

Það hefir verið bæði upphaf og endir á ræðum háttv. 2. þm. Reykv. (JB), að verkamenn sjeu á móti þessu, af því að svona sje reynslan erlendis. „Jeg apaköttur er,“ svo hljóða einkunnarorð hans. Eins og ómögulegt sje, að hjer geti eitthvað þrifist, sem ekki þrífst annarsstaðar. Það er ekki saman berandi, verkamannastjettin hjer og víða erlendis. Hjer er enginn skríll. Hjer er enginn skríll, nema þá ef vera skyldu þeir menn, sem vilja gerast leiðtogar þessara manna, menn, sem sigla undir fölsku merki og eru að reyna að láta berast upp til vegs og valda á breiðum bökum þeirra.

Það er ósvífni af hv. þm. (JB), að drótta því að ráðherrum og dómurum þessa lands, að þeir muni reynast vilhallir í dómum sínum. Slík orð eru staðleysustafir og þó hneykslanleg, er þingmaður talar þau. Munu þau ætluð til að kitla eyru manna á áheyrendapöllunum. En jeg þykist þekkja þá menn svo vel, sem á hlýða, að jeg megi fullyrða, að eyru þeirra klæji ekki eftir slíkum orðum. Enda mun háttv. þm. (JB) ef til vill komast að raun um það síðar.

Til þess að sýna, hve spaklega háttv. þm. (JB) falla rökin, þá vil jeg benda á orð hans um ónýtingu málamiðlunarmannsins, ef gerðardómur færi á eftir. Var aðalröksemdin sú, að það gerði að engu áhrif málamiðlunarinnar, að annar málsaðili vissi þá, að hann gæti altaf haft mál sitt fram þar. ímyndar hv. þm. (JB) sjer, að málsaðiljar, er svo stendur á, ali ekki yfirleitt þá von í brjósti, að þeir hafi sitt mál fram? Af því stafa bæði verkföll og verkbönn, að hlutaðeigendur búast við á þann hátt að hafa sitt mál fram. Og hvað er til fyrirstöðu, þótt ekki sje slíkur gerðardómur, að leggja út í blóðuga borgarastyrjöld, ef annar eða báðir aðiljar búast við á þann hátt að hafa sitt mál fram? Nei, gerðardómur rjettsýnna manna verður aldrei líklegri til að halla á annan málsaðilja en hnefarjetturinn. Er þessi röksemd háttv. þm. (JB), sem annað, á engu viti bygð.

Að því er snertir orð háttv. þm. í fyrra um gerðardóma og málsskot, þá skal jeg taka það fram, að hann ljet þá skoðun sína, sem jeg gat um fyr, ekki í ljós í þingræðu, heldur í samtali við mig utan funda. En þessu hjelt hann þá fram engu að síður, og er það, sem annað, ranghermi, að hann vill ekki kannast við þetta nú.

Athugasemd hv. þm. (JB) um latínuræður mínar hjer í deildinni ætla jeg að svara á latínu, til þess að eitthvað standi heima af því, sem hv. þm. var að tala um. Og vilji hann nema þá tungu, mun best að byrja á setningunni:

Quod licet Jovi,

non licet bovi.