17.03.1923
Neðri deild: 22. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í C-deild Alþingistíðinda. (2416)

68. mál, gerðardómur í kaupgjaldsþrætum

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Jeg hafði ekki ætlað mjer að tala í þessu máli, enda þótt það heyri undir mig, ef frv. verður að lögum, sem þó reyndar getur verið álitamál, því stundum á atvinnumálaráðherrann að gera eitt og stundum er það aftur dómsmálaráðherrann, sjá 5. gr. frv. Jeg bjóst ekki við miklum umræðum um það á þessu stigi málsins, og hefði mjer því ekki fundist ástæða til að kveðja mjer hljóðs, ef hjer hefðu eigi fallið orð, sem jeg vegna þingtíðindanna vil ekki láta standa ómótmælt. Jeg á við orð háttv. 1. þm. Reykv. (JakM) viðvíkjandi deilu þeirri, er reis út af prentaraverkfallinu nú í vetur, og sem jeg var svo heppinn að leiða til lykta. Hv. þm. (JakM) gaf það í skyn, að jeg hefði í því máli verið vilhallur í garð prentaranna. En það er ekki rjett. Jeg reyndi að koma fram sem allra hlutdrægnislausast og líta á málið frá sjónarmiði beggja og miðla málum eftir því sem hægt var. Að jeg hafi ekki dregið taum annars aðila, sem sje prentara, sjest best á því, að eftir að sættir voru komnar á og vinna hafin, komu fulltrúar beggja málsaðilja á minn fund og þökkuðu mjer mín afskifti af því máli, og báðir sögðu sig vera ánægða með úrslitin.