17.03.1923
Neðri deild: 22. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í C-deild Alþingistíðinda. (2417)

68. mál, gerðardómur í kaupgjaldsþrætum

Jakob Möller:

Hæstv. atvrh. (KIJ) kvaddi sjer hljóðs til að mótmæla orðum 2. þm. Reykv. (JB), en ekki mínum. Jeg sagði ekki, að hæstv. atvrh. (KIJ) hefði dregið taum eða verið vilhallur í garð prentara; jeg sagði að hann hefði stutt málstað þeirra, og voru það því orð hv. 2. þm. Reykv. (JB) um ráðherra og dómara og framkomu þeirra í garð verkamanna, sem atvrh. hefir átt við. (Atvrh. KIJ: Jæja, þá er jeg ánægður).

Viðvíkjandi orðum hv. 2. þm. Reykv. (JB) vil jeg svara því, að það má undarlegt heita, að hjer skuli ekki þekkjast nema undantekningar frá þeirri aðalreglu, sem hann talar um. Jeg verð að draga af því þá ályktun, að reglan sje þá alls ekki til, og að það sje fjarstæða og gangstætt reynslu okkar, að gerðardómar í kaupgjaldsþrætum, eða afskifti dómara og ráðherra af þeim máluni, hljóti ávalt að verða verkamönnum í óhag.

Háttv. samþm. minn (JB) sagði, að verkamenn berðust alstaðar á móti gerðardómum í þessum málum. Þetta er ekki nákvæmlega rjett. Það eru leiðtogar verkamanna, sem berjast á móti því, að komið verði í veg fyrir verkföllin á þennan hátt, af því að þeir nota þau sem pólitísk vopn í stjórnmálabaráttunni. Fæ jeg ekki sjeð að saki mikið, þótt þeir missi þar eitt vopn úr höndum sjer; hitt varðar mestu, sem er til almenningsheilla.