20.03.1923
Neðri deild: 24. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í C-deild Alþingistíðinda. (2427)

86. mál, mælitæki og vogaráhöld

Flm. (Lárus Helgason):

Eins og sjá má á frv. þessu, er hjer um allmikla breytingu að ræða frá núgildandi lögum um mælitæki og vogaráhöld. Breyting þessi hyggjum við flm. frv. að verði vel þegin af flestum landsmönnum, þar sem hjer verður að ræða um mikinn sparnað á fje almennings.

Útgjöld þau, sem kaupmenn og kaupfjelög hafa orðið að inna af hendi vegna gildandi laga um mælitæki og vogaráhöld, eru tvímælalaust úr vösum almennings Kostnaðinn við löggildingarstofuna hefir orðið að greiða sumpart úr ríkissjóði og sumpart frá verslunum í landinu. Samkvæmt skýrslu frá löggildingarstofunni nemur þessi kostnaður frá byrjun, þau 5 ár, sem hún hefir starfað, mikilli uppæð. Þennan kostnað ættu landsmenn að losna algerlega við hjer eftir, ef frv. það, sem nú er til umr., nær fram að ganga, þar sem lögreglustjórum er ætlað að taka að sjer eftirlit það, sem löggildingarstofan hefir nú, án nokkurs sjerstaks endurgjalds.

Eftirlitið ætti ekki að verða ver af hendi leyst af lögreglustjórum en löggildingarstofunni. Þeim er hægt að framkvæma það árlega, t. d. á þingaferðum, en það getur löggildingarstofan ekki nema með alt of miklum kostnaði. Enda er samkvæmt núgildandi lögum ekki ætlast til, að þetta eftirlit fari fram nema einu sinni á hverjum 3 árum.

Eins og minst er á í greinargerð við frv., er starfræksla löggildingarstofunnar, samkvæmt núgildandi lögum, óhagkvæm á ýmsan hátt, svo sem það, að ef lítið eitt hefir þurft að lagfæra vog, þá hefir ekki mátt gera við hana á staðnum, heldur hefir orðið að senda hana til Reykjavíkur, eins fyrir því, þó að viðgerðin hafi verið svo lítil og auðveld, að hver meðalbúhagur maður hefði vel getað leyst hana af hendi á lítilli stundu. Kostnaður við þessar sendingar voganna hefir orðið mikill, auk þess sem verkið sjálft hefir þótt mjög dýrt. Þar við bætist, að oft er mjög bagalegt að missa af notkun voganna um langan tíma. Samgöngur okkar eru ekki svo greiðar, að í þessu efni sje rjett að lögákveða slíkt fyrirkomulag.

Ýmislegt fleira mætti benda á til sönnunar því, að núgildandi lög um mælitæki og vogaráhöld eru ekki hagkvæm, en við þessa umr. málsins virðist það ekki nauðsynlegt.

Að endingu skal þess getið hjer, að líklegt er að þeir menn, sem vinna við löggildingarstofuna, geti fengið sjer eitthvað þarfara að vinna fyrir fósturjörðina en það, sem þeim hefir verið boðið að gera eftir núgildandi lögum. Vænti jeg, að frv. þetta fái að ganga til 2. umr., að þessari lokinni, og síðan til allshn.