20.03.1923
Neðri deild: 24. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í C-deild Alþingistíðinda. (2436)

86. mál, mælitæki og vogaráhöld

Magnús Kristjánsson:

Mörgum sýnist ef til vill, að hjer sje ekki um stórmál að ræða, en jeg hygg þó, að það sje ekki svo ómerkilegt, sem það máske sýnist. Jeg álít, að menn hæfi of mjög fest sjónir á því, að kostnaður hefir orðið nokkuð mikill af því að koma þessu í rjett horf, en sá kostnaður er nú að mestu um garð genginn og verður hjer eftir varla tilfinnanlegur.

Það má vel vera, að framkvæmdin á þessu hafi ekki verið upp á það fullkomnasta, og að vel hafi mátt laga þessi tæki með minni kostnaði en orðið hefir. En stofnunarinnar er alt að einu þörf, og um það vildi jeg fara nokkrum orðum, einkum eitt atriði, seni enn hefir ekki verið minst á. Á seinni árum hefir sú venja myndast, að mikill hluti útfluttrar vöru hefir verið seldur hjer á staðnum með þeim þunga, er hún hefir. Sýnist því ærið varhugavert, ef sú stofnun verður lögð niður, er tryggi útlendum kaupendum rjetta vog og mæli. Bið jeg háttv. nefnd að athuga þetta vel, því að það gæti valdið miklu tjóni, ef mótmæli kæmu eða kvartanir um ranga vigt útfluttrar vöru.

Því er svo varið löngum, að flest mál hafa fleiri hliðar en eina, og á þessu máli hygg jeg að þetta sje alvarlegasta hliðin. Ef stofnunin verður lögð niður og eftirlitið verður af handahófi, þá hverfur þessi trygging, og þá verður ef til vill illmögulegt að selja vöru hjer á staðnum; og þá mundi það sannast, að kostnaðurinn við stofnun þessa er hverfandi lítill í samanburði við það tjón, sem af því gæti leitt, ef útlendir kaupendur teldu, að með þessari fyrirhuguðu breytingu minkaði sú trygging, er þeir nú hafa fyrir útlátum þessarar vöru, er þeir kaupa hjer á landi.