20.03.1923
Neðri deild: 24. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í C-deild Alþingistíðinda. (2445)

86. mál, mælitæki og vogaráhöld

Flm. (Lárus Helgason):

Það er ekki vert að lengja umræðurnar mikið frá því, sem komið er, en mig langaði þó til að gera stutta athugasemd við það, sem hv. þm. Dala. (BJ) sagði. Hann talaði um tvær vigtir, sem stórbændur til sveita hefðu, aðra til að vega mönnum út með og aðra til að vega inn með. Þetta finst mjer benda á, að hann sje fátækur að röksemdum, er hann grípur til þessa, að bera óorð á góða bændur í sveit. Eru þeir þó þektir að því, að greiða fremur fyrir þurfamönnum án endurgjalds heldur en hafa slíka sviksemi sem þessa í frammi. Kannske þekkir hann dæmi þess úr sínu kjördæmi, en jeg trúi þó ekki, að kjósendur hans geri sig ánægða með slíkan sleggjudóm. Tel jeg þessi ummæli hans yfirleitt óviðeigandi og leyfi mjer að mótmæla þeim fastlega. En þó svo þetta ætti sjer stað, sem jeg fyrir mitt leyti geri ekki ráð fyrir, þá er það víst, að lögin, sem við búum undir, koma engan veginn í veg fyrir það. Því fer fjarri. Það er ekki opinber verslun, þó fátækir menn leiti á náðir annara sjer til bjargar, og fái hjá þeim vörur að láni. Lögin gera ekki ráð fyrir þessu. Vil jeg svo að lokum enn frekar láta í ljós undrun mína yfir þessari röksemdaleiðslu hv. þm. Dala. (BJ).