04.05.1923
Neðri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í C-deild Alþingistíðinda. (2448)

86. mál, mælitæki og vogaráhöld

Frsm. (Björn Hallsson):

Þetta mál er eitt af mörgum, sem vísað hefir verið til allshn. Er því ekki að undra, þótt eitthvað af þessum málum hafi tafist, þótt ekki sje það vegna þess, að allshn. hafi viljandi ætlað að tefja fyrir þeim.

Þetta mál var töluvert mikið rætt við 1. umr., og enn fremur í sambandi við fyrirspurn um þetta efni, og skal jeg eigi endurtaka það.

Eins og nál. sýnir, þá hefir nefndin fallist á frv., að efni til. En hún hefir leyft sjer að gera við það nokkrar brtt., og vildi jeg fara nokkrum orðum um þær. Þessar brtt. eru á þskj. 516.

1. brtt. gerir ráð fyrir því, að það eftirlit, sem frv. gerir ráð fyrir að lögreglustjórar annist, skuli þeir aðeins hafa á hendi í kaupstöðum, en gerir ráð fyrir því, að hreppstjórar hafi það á hendi út um sveitir og í kauptúnum, og telur að eftirlitið verði betra, með því að hægara verður að ná til eftirlitsmannanna með því móti og þeir hafa minna svæði til eftirlits.

Í 2. brtt. vill nefndin ákveða það, að ný vogaráhöld, sem keypt eru frá útlöndum, sjeu keypt þaðan löggilt, og þá frá þeim löndum, sem nota sömu vogar- og mælitæki og vjer, og skulu þau ekki teljast löggildingarskyld hjer á landi, meðan þau reynast rjett og óskemd. Lögreglustjórum er aftur ætlað að löggilda þau tæki, sem smíðuð eru hjer innanlands, og þau, sem ganga úr sjer og þarfnast viðgerðar og endurlöggildingar. Þann kostnað, sem af þessu leiðir, borga auðvitað eigendurnir.

Nefndin fjelst á að fela lögreglustjórunum löggildingu þessa. Hún taldi óþarft að auka mönnum þann kostnað, að verða að senda tækin til Reykjavíkur til viðgerðar þar og endurlöggildingar. í kaupstöðum öllum eru nú orðið góð verkstæði, sem geta annast slíkar viðgerðir.

Þá hefir nefndin orðið ásátt um, að öll vogar- og mælitæki skuli athuguð á 3 ára fresti. Skulu lögreglustjórar hafa það eftirlit með hendi í kaupstöðum, en hreppstjórar í sveitum og bæjum, þar sem lögreglustjóri er ekki búsettur. Ætlast nefndin til, að lögreglustjórar fái enga sjerstaka borgun fyrir þetta eftirlit, en viðgerðir borga eigendur sjálfir. En borgun til hreppstjóra fari eftir 7. gr. laga nr. 64, 14. nóv 1917, um daglaun og mílupeninga. En lögreglustjórum skal borga útlagðan kostnað þeirra, eftir sanngjörnum reikningi.

Í nál. er bent á það, að nokkur aukakostnaður mundi af þessu stafa fyrir ríkissjóð í byrjun, þar sem kaupa yrði þau áhöld, sem þarf til þess að ákveða með, hvort tækin eru rjett. Þessi áhöld þurfa að vera í kaupstöðum og víðar, en þó ekki hjá nærri öllum hreppstjórum, og gætu þeir hæglega skifst á um þessi áhöld. Enda er engin þörf eftirlits í sveitum, nema þar sem verslanir eru, og þarf því ekki að senda þessi prófáhöld til líkt því allra hreppstjóra.

Þá er síðasta brtt. nefndarinnar, um að stjórnarráðið semji reglugerð um framkvæmd laganna, eftirlit, greiðslur o. fl.

Það upplýstist hjer við 1. umr. þessa frv., að löggildingarstofan hefir borið sig fjárhagslega, gagnvart ríkissjóði. En þetta hefir orðið á þann hátt, að notendur hafa orðið að greiða mjög há gjöld til löggildingarstofunnar, eins og glögt kom fram við 1. umr. Það stendur á sama, hvort það er ríkið eða einstaklingarnir, sem halda þessari stofnun uppi. Kostnaðurinn er hinn sami fyrir því. Aðalatriðið er, að þetta geti orðið á ódýrari hátt, og þó eins trygt, og að því telur nefndin að frv., með brtt., miði. Eins og bent er á í nál., þá hefir þegar ein umferð verið farin um alt land frá löggildingarstofunni. Sú umferð hefir líklega haft talsverða þýðingu, því eins og skýrt hefir verið frá, þá voru rúm 60% vogar- og mælitækja talin óhæf eða gölluð. En þegar búið er að leiðrjetta svo mikið og vekja athygli á þessu, þá ætti að vera hægara framhaldið og menn farnir að vakna með það að nota rjett áhöld. Nefndin álítur, að þetta verði fult svo trygt. Auðvitað má segja, að hægt sje að fara kringum lögreglustjóra og hreppstjóra. En þá má eins gera það við sendimenn löggildingarstofunnar. þeir geta ekki frekar en lögreglustjórar og hreppstjórar sjeð um það, að tæki, sem þeir dæma ónothæf, sjeu ekki notuð fyr en gert er við þau. Þetta ætti að vera auðvelt, ef eftirlitsmenn eru margir og svæðin minni um leið. Nefndin ræður því hv. deild til að samþykkja þetta frv. með brtt. á þskj. 516.