04.05.1923
Neðri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í C-deild Alþingistíðinda. (2451)

86. mál, mælitæki og vogaráhöld

Þorsteinn Jónsson:

Hv. 2. þm. Reykv. (JB) taldi, að almenn óánægja hefði verið meðal almennings með gerðir löggildingarstofunnar út af því, að vogar- og mælitækin hefðu verið gerð rjett. Það er ekki sennilegt, að óánægjan hafi stafað af því, heldur af því, hve löggildingin á tækjunum hefir orðið dýr hjá löggildingarstofunni.

Þá dró hann í efa, að eftirlitið gæti orðið betra en það er nú. En jeg álít, að lögreglustjórar og hreppstjórar eigi miklu hægara með að líta eftir, hver hjá sjer, heldur en sendlar löggildingarstofunnar, sem koma einstöku sinnum á staðinn.

Hv. 2. þm. Reykv. (JB) dró það í efa, að lögreglustjórar og hreppstjórar væru færir um að hafa þetta eftirlit á hendi. (JB: Þetta er ekki allskostar rjett!). En jeg álít nú samt, að þeir geti framkvæmt þetta svo vel sje. Og kostnaðurinn verður áreiðanlega minni en nú er. Það gefur að skilja, að það verður dýrara að halda uppi þessari stofnun með mörgum starfsmönnum, heldur en að menn, sem eru á stöðunum, annist þetta eftirlit.

Þá dró hann í efa, að stimplunin yrði ódýrari, og einkum þó, að hún yrði eins góð og nú á sjer stað hjá löggildingarstofunni. Jeg tók það fram við 1. umr., að leiðrjettingar löggildingarstofunnar hefðu gengið mjög langt. Þannig hefðu þeir heimtað sendar til Reykjavíkur vogir, sem aðeins hefði vantað í einn nagla, og kostnaðurinn af því ekki orðið mikið minni en þó keyptar hefðu verið nýjar vogir. Margar, eða jafnvel meiri hlutinn af viðgerðum löggildingarstofunnar, eru þannig vaxnar, að hver sæmilegur járnsmiður getur leyst þær af hendi, enda eru og eigi allfáir járnsmiðir í þjónustu löggildingarstofunnar. Ef svo færi, að eigi væri hægt að gera við eitthvert mælitæki eða vog utan Reykjavíkur, yrði ekki annað úr, en að það fengist ekki löggilt. Jeg get því ekki sjeð, að neitt missist við þessa breytingu, en landið losnar við dýra og óþarfa stofnun. Að vísu er það, að þessi stofnun hvílir eigi þungt á ríkissjóði, því hún má okra á þessum tækjum sínum, og eru það engin undur um þá verslun, sem er einkasöluverslun, þótt hún beri sig fjárhagslega, þegar hún má leggja á vörurnar eins og henni sýnist. En þó eru það landsmenn, sem borga brúsann.