04.05.1923
Neðri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í C-deild Alþingistíðinda. (2452)

86. mál, mælitæki og vogaráhöld

Frsm. (Björn Hallsson):

Það voru fáein atriði í ræðu háttv. 2. þm. Reykv. (JB), sem jeg ætlaði að gera nokkrar athugasemdir við, enda þótt háttv. 1. þm. N.-M. (ÞorstJ) hafi svarað sumu af því. Háttv. þm. (JB) hjelt því fram, að óánægjan með þessa stofnun væri sprottin af því, að menn hefðu verið neyddir til þess að hafa rjett vogar- og mælitæki, eftir að löggildingarstofan tók til starfa. Þetta er ekki rjett, heldur er kostnaður sá, sem leiðir af eftirlitinu, þyrnir í augum manna, ásamt þeirri fyrirhöfn og óþægindum, sem fylgir því að senda þessi áhöld til Reykjavíkur. Þetta er því algerlega órjettmæt aðdróttun frá hv. þm. (JB), sem jeg hjer með mótmæli. Það er margsannað, bæði af umr. hjer á þingi og annarsstaðar frá, að kostnaðurinn við sendingar mæli- og vogartækja, til og frá Reykjavík, er gífurlegur.

Þá þótti honum óþolandi, að tækin skyldu keypt löggilt frá útlöndum. Taldi hann það aðallega á móti því, að þá væri eigi hægt að kaupa áhöldin frá Ameríku, því að þar væri ekki sami mælir og vog sem hjer. Þótt nú svo sje, að þessi áhöld yrðu ekki keypt frá Ameríku, finst mjer ekki mikill skaði skeður, því að auðvelt er að fá nóg áhöld frá Norðurlöndum, sem öll nota sama mæli og vjer.

Það, sem vakti fyrir nefndinni, var það að losa kaupendur mæli- og vogartækja við þennan aukakostnað, sem legst á þau vegna löggildingarstofunnar hjer; því það munar litlu á verði, að kaupa tækin löggilt frá útlöndum. Þá sagðist hann mjög efast um það, að lögreglustjórar og hreppstjórar bæru skyn á þessa hluti, og þyrfti æfða og sjerfróða menn til þess að hafa þetta eftirlit á hendi. Nefndin getur ekki fallist á þessa skoðun hans. Eftir samtali við formann löggildingarstofunnar, þá kom þar glöggt í ljós, að ekki er mikill vandi að hafa þetta eftirlit, ef menn hafa þau áhöld, sem með þarf. Þess vegna telur hún, að allir sæmilega greindir menn geti haft það á hendi.

Hann sagði og, að ef löggildingarstofan yrði afnumin, mundi brátt sækja í sama horfið og áður, því eftirlitið mundi reynast ónógt. Mjer finst það ekki gera mikið til, þótt reynt yrði þetta fyrirkomulag, sem frv. fer fram á; auðvitað er ekki hægt að fullyrða neitt um það fyrirfram, en jeg álít það muni gefast eins vel eða betur. Landsmenn þurfa nóga skatta að greiða, þótt ekki sjeu gerðar gyllingar til þess að hafa af mönnum fje á þennan hátt.