24.02.1923
Neðri deild: 5. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í C-deild Alþingistíðinda. (2478)

4. mál, embættaskipun

Forsætisráðherra (SE):

Hv. deild er það kunnugt, að því var lýst yfir af stjórninni í fyrra, að hún mundi gera tilraun til að gera, embættabáknið einfaldara en það er nú. Fóru flestar raddir í þinginu í fyrra í þá átt, að full nauðsyn væri á því, að ekki yrði fjölgað embættum, og dregið yrði úr kostnaði við embættabáknið.

Stjórnin hefir nú reynt til að efna þetta loforð sitt. Leggur hún til, að lögð verði niður 9 embætti. Jafnframt mun stjórnin, ef hún verður þess áskynja, að frv. þessum verði vel tekið, koma fram með fleiri tillögur og frv. til sparnaðar.

Skal jeg þá leyfa mjer að víkja að frv. um embættaskipunina.

Þar er um niðurlagningu 6 sýslumannsembætta að ræða, og verður fyrsta spurningin sú, hvort sýslumennirnir geti gegnt hinum nýju embættum, og svo hitt, hvort embættin verði svo stór, að almenningi verði óþægindi að því. Í frv. er gerð nákvæm grein fyrir störfum sýslumanna og nægir að benda á, að ekkert hinna nýju embætta mundi að nokkrum mun verða erfiðara en Suður-Múlasýsla er nú og ýms önnur embætti hjer, svo sem Ísafjarðarsýsla og Eyjafjörður og Siglufjörður, áður en þau voru aðskilin. Hafa þó nógir viljað embætti þessi, og fólk ekki kvartað undan því, að embættismennirnir væru ofhlaðnir störfum.

Þau andmæli hefi jeg heyrt gegn þessu frv., að verið sje að kippa burt þeim embættum, sem í hávegum sjeu hjá þjóðinni. En þar til er það að segja, að þessar breytingar fara ekki í þá átt yfir höfuð að afnema þessi embætti, heldur í þá átt að gera þau stærri og veglegri. Og verði það ekki gert, þá glata þau sínu forna áliti. Þjóðin hefir ekki ráð á að halda uppi smáembættum með háum launum í smásýslum, eins og t. d. Dalasýslu og Rangárvallasýslu. Er það sjálfsagt, að sjá embættismönnum landsins fyrir nægum viðfangsefnum. Við það vaxa kraftarnir og manngildið. Þess er og enn að gæta, að minni þörf er lögfræðings nú í sýslu hverri en áður var, vegna betri samgangna og símasambanda.

Í rökstuðningi frv. er sagt, að aðalstörf sýslumanna sjeu dómarastörfin. Þau taka að vísu engan veginn mestan tíma, en eru að ýmsu leyti afarþýðingarmikil fyrir þjóðfjelagið. Ef athugað er, hvernig þessi störf koma niður á 10 ára bil, sjest, að minna er af dómsmálum í Árnes- og Rangárvalla og Vestur-Skaftafellssýslum heldur en í Suður-Múlasýslu einni. Þessar tölu tala. Þær sýna, að þessi eina sýsla er erfiðari en allar hinar. Dómsmálin eru besti mælikvarðinn á það, hve viðskiftalífið er fjörugt og lifandi, og þar sem það er í mestum blóma, þar er mest þörf embættismanna. Er þess og að gæta, að samgöngur eru þægilegri og betri í sýslum þessum en Suður-Múlasýslu.

Frumvarpi þessu eru samfara 2 fylgifrv. Annað um manntalsþing. Vík jeg síðar að því. En hitt er um það, að í sýslum þeim, sem lagðar verða niður, komi sjerstakir oddvitar, kosnir af sýslunefndum. Halda sýslurnar við þetta fullu sjálfstæði sínu. Um hitt mun enginn efast, að færir menn fáist í sýslunum til að gegna störfum þessum. Er þetta í fullu samræmi við öldu þá, sem nú gengur bæði innanlands og utan, að sýslurnar og bæirnir fái sem mest sjálfstæði og vald til að ráða sínum eigin fjármálum.

Held jeg, að ómögulegt sje að mótmæla, að hjer verði um mikinn sparnað að ræða. Þær aðfinningar hefi jeg heyrt gegn frv., að álits sýslunefnda hafi ekki verið leitað. Jeg vissi, að það var þýðingarlaust, því að þær mundu allar vera á móti því, en vilji þingið spara, má ekki fara eftir því.

Læt jeg svo úttalað um frv. að sinni, en óska, að það fari til allshn., ef ekki þykir ástæða til að vísa því til sjerstakrar nefndar.