24.02.1923
Neðri deild: 5. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í C-deild Alþingistíðinda. (2479)

4. mál, embættaskipun

Bjarni Jónsson:

Jeg gæti hugsað, að ýmsir sparnaðarmenn myndu spara vængi við þetta frv.

Mjer hefði þótt eðlilegast, að stjórnin leitaði álits og vilja landsmanna í þessu máli. En að ráðast beint á kjósendur er meiri ofurhugur en jeg hefði treyst stjórninni til. Mínir kjósendur álíta þetta að minsta kosti árás á sig, er sjá má af þingmálafundargerð úr Dalasýslu, sem jeg skal lesa kafla úr, með leyfi hæstv. forseta:

„Fundurinn lýsir óánægju sinni yfir þeirri stefnu, er virðist hafa ráðið á undanfarandi þingum, að fækka embættismönnum til sveita, jafnframt því sem þeim hefir verið fjölgað í kaupstöðum landsins. Yfirleitt telur fundurinn hvorki sanngjarnt nje heppilegt að leggja niður eða sameina embættin, sem nú eru til sveita, en telur líklegt, að betur megi nota starfskrafta ýmissa embættismanna í Reykjavík, og að sameina megi þar ýms skyld embættisstörf og draga úr starfsmannahaldi við ýmsar opinberar stofnanir, til sparnaðar.“

Þetta er að miklu leyti rjett athugað. T. d. er stjórnarráðið ólíku yfirferðarminni sýsla, en Árnes- og Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslur. Og þó að löng sje leiðin milli skrifstofanna í stjórnarráðinu, virðist einn maður betur getað annað þeim en öllu Suðurlandsundirlendinu. Auðvitað gætu sýslumenn annað hinum nýju sýslum með 2 löglærða fulltrúa. (Forsrh. SE: Þess þarf ekki). Það myndu þeir þó fá von bráðar. Auk þess á nú að launa sýslunefndaroddvita sjerstaklega. (Forsrh. SE: Einar 300 kr. á ári). Höfðingi mikill er sá, sem talar, en þó þykist jeg vita, að þinginu muni síðar farast enn höfðinglegar við þessa starfsmenn.

Enginn sparnaður mundi af þessu vera fyrir ríkissjóð í næstu 10–20 árin, því að þeir, sem í embættum þessum sitja, er leggja á niður, eru flestir ungir menn. Þetta eru því einungis hillingar, sparnaðarsálmar, en ljettir ekki á ríkissjóði. Rjettara hefði verið að biðja stjórnina um að tilgreina í fjárlögunum ágóða af tóbakseinkasölu, víneinkasölu o. s. frv., með sundurliðuðu mannahaldi, og vita, hvort ekki mætti spara einhvern af tóbaksembættismönnum, víneinkasölumönnum o. s. frv. Þar mætti spara strax, og þar væri rjett að spara. En gegn tillögum þeim, sem hjer liggja fyrir, vil jeg lýsa yfir eindregnum mótmælum mínum og kjósenda minna.

Jeg tel ekki happasælt að rífa niður allar gamlar endurminningar og það, sem á erlendu máli kallast „traditionir“, að skafa alt af sjer, jafnvel nöfnin sjálf, sem minnir á, að hjer hafi búið íslensk þjóð í íslensku landi. En allar þessar tillögur miða í þá átt. Þær bera vott um dæmalaust virðingarleysi gagnvart sögu þjóðarinnar, orðsýki, er menn reyna að fá lof fyrir sparnað, sem kemur hvergi fram, og skammsýni, þegar litið er til framtíðarinnar.