24.02.1923
Neðri deild: 5. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í C-deild Alþingistíðinda. (2483)

4. mál, embættaskipun

Jón Sigurðsson:

Frv. það, sem hjer liggur fyrir, er fram borið sem sparnaðarfrv. Menn verða að álíta það viðleitni stjórnarinnar til þess að uppfylla eitthvað af þeim loforðum um sparnað, sem hún gaf í fyrra. En jeg verð að játa, að þegar jeg lít yfir þetta frv. stjórnarinnar í heild, flýgur mjer ósjálfrátt í hug, að hæstv. stjórn hafi leitað fyrir sjer, hvar hún gæti gripið niður í sparnaðartillögum, sem síst mundu ná samþykki þingsins. Hjer á jeg við alt þetta frv., sem heild, en vel má vera um einstaka embætti, að leggja mætti það niður.

Jeg lít svo á, að með frv. því, sem hjer liggur fyrir, sje verið að taka úr hægri vasanum og stinga í þann vinstri. Þegar menn reyna að spara, er það því aðeins sparnaður, að það spari þjóðfjelaginu útgjöld. Ef sparað er fyrir ríkissjóð, má sá kostnaður ekki koma niður á almenningi á annan hátt.

Í hinum stærri núgildandi sýslum, sem frv. gerir ráð fyrir að leggja niður, myndu, um leið og breytingin kæmist í framkvæmd, setjast að lögfræðingar, sem almenningur leitaði aðstoðar hjá. Þessir menn myndu selja leiðbeiningar sínar; þeir þurfa að lifa, og þeir myndu setja það verð á vöru sína, að lífvænlegt væri fyrir þá. Hygg jeg, að útgjöld hjeraðsbúa til þessara manna myndu slaga hátt upp í sýslumannslaun.

Sýslumenn þurfa oft að ferðast í embættiserindum, og í hinum nýju sýslum tækju þau ferðalög oft mjög langan tíma. Hæstv. forsrh. (SE) gat þess, að sýslubúar gætu jafnan símað til sýslumanns. En hvernig færi, ef sýslumaður væri þá á ferðalagi, jafnvel svo vikum skifti? Eftir svo sem 1 eða 2 ár segðu allir, að sýslumaður þyrfti að hafa lögfræðing til aðstoðar, og hvað er þá orðið af sparnaðinum?

Jeg sje því ekki, að sparnaður verði fyrir þjóðfjelagið yfirleitt, ef þetta frv. verður samþykt, þó að ríkissjóði sparaðist ef til vill eitthvað fje við það. En hverju gegnir, að hæstv. stjórn hefir ekki litið nær sjer?

Í fyrra var um það rætt að sameina hæstarjett og lagadeild háskólans, eða fækka dómendum í hæstarjetti að öðrum kosti. Hæstv. stjórn lagði þá á móti sameiningu þeirra embætta. Þó hefir það komið í ljós, að sú sameining er vel framkvæmanleg, þar sem einn dómandi í hæstarjetti hefir síðan verið jafnframt settur til að gegna kenslustörfum í lagadeildinni. En sjeu menn mótfallnir þessu, hví þá ekki að fækka dómendum í hæstarjetti? Það eykur landsmönnum engin útgjöld, en er til sparnaðar fyrir ríkissjóð. Jeg nefni þetta einungis sem dæmi þess, hvar stjórnin hefði getað gripið niður öllum að meinalausu, og hefði verið þakklátur stjórninni, ef hún hefði borið fram tillögur í þessa átt.

Hæstv. forsrh. (SE) sagði, og lagði áherslu á, að sýslumennirnir hefðu nú ekki nóg að starfa. Hjer liggur fyrir skrá um skrifstofukostnað sýslumanna, og sje jeg, að hann er áætlaður frá 850–3500 krónur í þeim sýslum, sem stjórnin vill leggja niður, í flestum um 2500 krónur; það er talsverð ófeilni af hæstv. forsrh. (SE) að segja svo, með þetta fyrir framan sig og upp í opið geðið á oss, að sýslumenn hafi ekki nóg að starfa. Til hvers gengur þá þetta fje? Er stjórnin að gefa mönnunum það?

Þá mintist hæstv. forsrh. (SE) á skipulag sýslunefnda og kosningu sýslunefndaroddvita. þessar sýslur, sem eiga nú að missa sýslumenn sína, mega sannarlega vera þakklátar stjórninni fyrir hennar landsföðurlegu umhyggju. Það er ekki nóg með, að þær sjeu sviftar sýslumönnum sínum, heldur eiga þær í ofanálag að kosta sjerstaka sýslunefndaroddvita, en þær sýslur, sem halda sýslumönnum sínum, þurfa engu slíku til að kosta. Að vísu er ekki gert ráð fyrir hærri launum til þeirra en 300 krónum. En hræddur er jeg um, eins og hv. þm. Dala (BJ), að þau launakjör standi ekki nema 1 eða 2 ár, og menn verði síðan neyddir til að hækka þau. Þetta getur því orðið talsverður ábætir á sýslusjóði, auk allra óþæginda, er af breytingunni mundi leiða.

Hæstv. forsrh. (SE) sagði, að stjórnin vildi spara, og kvað fleiri sparnaðarfrv. mundu koma á eftir, ef þessu yrði vel tekið. Jeg sje ekki í hvaða sambandi þetta frv. stendur við önnur hugsanleg frv. En jeg skal fús að styðja hæstv. stjórn í hverri skynsamlegri sparnaðarviðleitni, þó jeg geti ekki verið samþykkur þessu frv., og vona jeg, að sama gegni um fleiri þingmenn.