24.02.1923
Neðri deild: 5. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í C-deild Alþingistíðinda. (2484)

4. mál, embættaskipun

Þorsteinn Jónsson:

Allar raddir, sem hjer hafa heyrst um frv. þetta, hafa snúist gegn því, að undantekinni rödd stjórnarinnar sjálfrar. Mætti því ætla, að deildin væri öll andvíg frv.

Jeg lít nokkuð öðrum augum á þetta mál en flestir þeir, sem talað hafa um það, og því vil jeg gera nokkurra grein skoðunar minnar.

Því hefir verið hreyft til andmæla frv., að sýslutakmörkin væru svo gömul, að goðgá væri að breyta þeim. En hjer er ekki um það að ræða að breyta takmörkum sýslna, heldur lögsagnarumdæmum. Hefir stærð þeirra áður verið breytileg og sýslumenn fleiri en nú eru. Er því ástæða þessi harla lítilsverð.

Þá hefir það líka verið sagt, að embætti þessi væru orðin svo gömul, að ræktarleysi væri að afnema þau. Hjer er ekki um afnám, heldur aðeins fækkun að ræða. Ástæðan er því einskis virði.

Þá hefir frv. verið fundið það til foráttu, að engin sparnaður fylgdi því í bili. Það er rjett, og væri auðvitað betra, ef sparnaðurinn kæmi strax, en hann kemur síðar, og við það má vel una.

Það er auðvitað, að hvar sem um niðurlagningu embætta er að ræða, verður skarð eftir, en spurningin er einungis, hvar skarðið sakar minst, og jeg hygg það vera einmitt hjer. Leikur engin efi á, að Suður-Múlasýsla er mun , erfiðari heldur en Dala- og Strandasýslur sameinaðar, og jafnvel erfiðari en nokkurn sameining sú, sem frv. ræðir um. Að sinni skal jeg svo ekki fjölyrða meira um frv.