02.05.1923
Neðri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í C-deild Alþingistíðinda. (2498)

4. mál, embættaskipun

Frsm. meiri hl. (Magnús Guðmundsson):

Öll er nefndin samdóma um, að frv. þetta sje ekki til þess fallið að verða að lögum, eins og það liggur nú fyrir. Hún lítur svo á, að hæstv. stjórn hafi gripið þar niður um fækkun embætta, sem síst skyldi, að því undanskildu, ef fækka ætti læknum. Ef dæma má eftir öllum þeim röddum, sem heyrst hafa um frv., úr þeim hjeruðum, sem verða fyrir barðinu á því, er auðsætt, að það mælist mjög illa fyrir hjá almenningi. Hann hugsar sem sje þannig, að það sje næsta undarlegt að afnema þessi gömlu og þörfu embætti, en láta standa ýmis embætti, sem ekki verður sjeð, að nokkurt gagn sje að. Er mjer engin launung á, að jeg á þar við ýmis embætti við háskólann, sem vitanlegt þykir um, að ekkert gagn geri. Væri nú svo, að almenningur og vjer þingmenn sæjum, að mjög nærri væri gengið í fækkun embætta og byrjað þar, sem helst má, mundum vjer vilja teygja oss langt. En þegar vjer sjáum, að þann veg er að farið, að ráðist er að embættunum til sveita, embættum, sem almenningi er yfirleit sárt um, en hin óþarfari látin standa, er ekki að vænta þess, að vjer sjáum oss fært að samþykja slíkt. Og jeg get ekki sjeð, að það sje illgirnisleg getgáta, þó að sagt væri, að frv. þetta væri naumast fram borið til þess að fá það samþykt, heldur til að gera afsökun sína út af loforði því, sem fólst í stefnuskrárræðu hæstv. stjórnar, er hún settist að völdum í fyrra.

Um ágreining þann, sem er milli nefndarhlutanna, vísa jeg til nefndarálitsins, sem jeg finn ekki ástæðu til að bæta neinu verulegu við. Aðeins vil jeg taka það fram, að jeg sje ekki fært, eftir þeim kunnugleika, sem jeg hefi af staðháttum, að sameina Rangárvalla- og Skaftafellssýslur, en í því efni munu þeir þingmenn, sem hlut eiga að máli, aðstoða mig við framsöguna, og sleppi jeg því að ræða það mál frekar. Um Dala- og Strandasýslu er það að segja, að jeg lít svo á, að vel megi sameina þær, og að það eigi að gera, þegar þær losna næst. Hins vegar er engu slept, þótt lög verði ekki samþykt um það nú að sameina þessar sýslur, og er nægilegt að sjá svo um, að hvorugt embættanna verði veitt, þegar þau losna næst, fyr en tækifæri hefir verið til þess fyrir Alþingi að láta uppi álit sitt um það, hvort sameining skuli fara fram eða eigi. Til þessa nægir þingsálytkun, og má vel vera, að jeg beri hana fram á þessu þingi.

Jeg vil þá snúa mjer að þeirri hlið þessa máls, sem mestu varðar, og er sú eina, sem gæti rjettlætt frv., en það er sparnaðarhliðin. Um hana er það að segja, að mjer virðist hæstv. forsrh. (SE) áætla sparnaðinn 50000 kr. á ári. Að þessari niðurstöðu kemst hann með því að áætla, að ekki þurfi að bæta við skrifstofukostnað sýslumanna nema 3500 kr. til þess að fá nægilega starfskrafta handa embættunum. Nú eru það 6 sýslumanna- og bæjarfógetaembætti, sem afnema á, og er þá auðsætt, að gengið er út frá, að hver hinna umræddu sýslumanna vinni fyrir tæpum 600 kr. á ári, og er það rúmlega vinnukonukaup. Það er nú varla von, að hæstv. forsrh. (SE) vilji halda þessum ómögum á landssjóðnum, en fyrst hann lítur svona smáum augum á sýslumennina og störf þeirra, þá liggur nærri að spyrja hann, hvers vegna hann ætli þeim þá, meðan núverandi skipulag helst, jafnhátt skrifstofufje sem hann gerir. Fyrst hann álítur t. d. að sýslumaðurinn í Skagafjarðarsýslu vinni ekki fyrir nema vinnukonukaupi, þótt hann hafi 7–8000 kr. í laun, því ætlar hann honum þá nú, auk þessa, yfir 2000 kr. á ári í skrifstofufje. Þetta bendi jeg á, til þess að sýna fram á öfgarnar í stjfrv., öfgar, sem gerðar eru til þess að láta sparnaðinn líta út meiri en hann er.

Til þess að fá ábyggilegt yfirlit yfir sparnaðinn, ætla jeg að taka eina samsteypuna, Húnavatns- og Skagafjarðarsýslu. Þau embætti þekki jeg vel, þar sem jeg hefi gegnt öðru þeirra nokkur ár. Í Skagafjarðarsýslu er svo mikið að gera, að það er á fárra færi að leysa það af hendi án aðstoðar, og jeg veit ekki til, að þar hafi á síðari tímum verið nema fáir sýslumenn, sem ekki hafi haft einhverja aðstoð, enda hefir stjórn og þing viðurkent þetta með því að veita skrifstofufje, er nemur töluverðri upphæð. Jeg hefi orð hæstv. forsrh. (SE) sjálfs fyrir mjer í því, að sýslumaðurinn í Skagaf jarðarsýslu þurfi mann að hálfu sjer til aðstoðar til þess að koma störfunum frá. Og í Húnavatnssýslu geri jeg ráð fyrir að þurfi sömu starfskrafta, jeg þarf því 3 menn til að gegna störfum í báðum þessum sýslum. Störfin mundu ekki minka neitt verulega við að steypa þessum embættum saman. Það, sem hverfur af störfum, set jeg á móti tímaeyðslu í lengri ferðalögum og því, að jeg met ekki ólöglærða menn jafngilda til slíkra starfa sem löglærða.

Í stjfrv. er gengið út frá 9500 kr. launum hjá öllum sýslumönnum, og það voru þau líka árið 1921, þegar dýrtíðaruppbótin var sem hæst. En hvers vegna hæstv. stjórn miðar við laun sýslumanna 1921 í frv., sem hún leggur fyrir Alþingi 1923, er jeg ekki fær um að svara, enda mun vandfundin skynsamleg ástæða fyrir því. Launin eru á yfirstandandi ári 7200 kr. hjá sýslumönnunum í Skagafjarðar- og Húnavatnssýslu, og skrifstofufje hjá hvorum þeirra mun vera 2250 kr. Starfræksla þessara tveggja embætta kostar því ríkissjóðinn á yfirstandandi ári 18900 kr.

Og hvað sparast nú af þessari fjárhæð við sameininguna? Til þess að starfrækja embættin þarf, eftir till. hæstv. stjórnar, sýslumann, og honum geri jeg 7200 kr. laun, eins og nú er. En eins og jeg hefi áður sýnt fram á, þarf hann 2 skrifara og báða duglega. Slíka menn er, eftir núverandi verðlagi, ekki hægt að fá fyrir minna en 3000 kr. laun, því þeir verða að vera svo færir, að þeir geti afgreitt ýms mál á eigin hönd. Til launa færi þá, eftir hinu nýja fyrirkomulagi, 13200 kr. Til skrifstofuhalds, auk launa, geri jeg 2000 kr. á ári (ritföng, bækur, húsnæði, ljós, hiti). Til að launa oddvita sýslunefndar Skagafjarðarsýslu áætla jeg 1000 kr. á ári, og er alveg ómögulegt að hugsa sjer þá borgun minni. Starfrækslan myndi þá kosta eftir nýja fyrirkomulaginu 16200 kr., og sparnaðurinn þá verða 2700 kr. á ári. Nú fæ jeg ekki betur sjeð, en að vel sje hægt að lækka nokkuð skrifstofukostnað sýslumanna, og lít jeg svo á, að hann megi lækka niður í 1500 kr. hjá hvorum, og sparast þá 1500 kr. Mismunurinn á starfrækslukostnaðinum yrði þá 1200 kr. á ári, og sá munur er ekki svo mikill, að gerlegt sje hans vegna að sameina embættin þvert ofan í vilja hjeraðsbúa. Auk þessa þyrfti svo líklega, ef þetta kæmist á, að hækka laun hreppstjóranna, þar sem störf þeirra og ábyrgð ykist að mun.

Svona lítur þá þessi reikningur út, og ef hið sama er um hinar sýslurnar, yrði sparnaðurinn, þar sem hin niðurlögðu embætti eru 6, 7200 kr., eða með öðrum orðum, ein embættislaun. Og þetta er alveg eðlilegt, því að það, sem sparast, er ekki annað, alls ekki annað en mismunurinn á launum löglærðra og ólöglærðra manna. Sýslumennirnir hafa, að 2–3 undanskildum, alveg nóg að gera, og afnám þessara embætta veldur því vitanlega ekki, að störfin hverfi, heldur því, að aðra verður bara að kaupa til að vinna þau.

Jeg skal ekki alveg fullyrða, að hið sama verði uppi á teningnum um hinar aðrar sýslusamsteypur, en jeg geri ráð fyrir, að svo verði. Það er t. d. auðsætt, að sýslumennirnir í Eyjafjarðar-, ÁrnesRangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslum hlytu að þurfa löglærða fulltrúa.

Annars skal jeg taka það fram, að jeg undrast það, hversu hátt háttv. forsrh. (SE) hefir ákveðið skrifstofukostnaðinn fyrir yfirstandandi ár. Mjer virðist hann hafa hækkað um 10% síðan á síðastliðnu ári, en samtímis lækkar dýrtíðaruppbótin úr 94% í 60%. Og alveg fráleitt verður þetta, þegar það er athugað, að hæstv. forsrh. (SE) ákveður þennan skrifstofukostnað eftir að hann hefir ákveðið að leggja þetta frv. fyrir þingið, frv., sem í raun og veru hlýtur að byggjast á því, ef nokkurt vit á að vera í áætlununum, að sýslumennirnir hafi alt of lítið að gera. En ef svo er, því á þá að láta þá fá svo mikið skrifstofufje?

Jeg þykist þá hafa sannað það, að frv. þetta ber svo lítinn sparnað í skauti sínu, að það, vegna óþæginda þeirra, sem því eru samfara, er ekki til þess fallið að verða að lögum.

Að síðustu vil jeg snúa mjer að nokkrum athugas. við greinargerð frv.

1. Af störfum sýslumanna hafa yfirskattanefndastörfin alveg gleymst, og þeim fylgir mikið starf.

2. Mig rak í rogastans, er jeg sá það tilfært sem meðmæli með þessu frv., að eftirlaunafúlgan minkaði, ef frv. þetta yrði að lögum. Veit þá ekki hæstv. forsrh. (SE), að eftirlaun eru afnumin fyrir aðra en þá, sem fengu veitingu fyrir 1. jan. 1920?

3. Um þingaferðirnar mun jeg ræða sjerstaklega, er frv. um afnám þeirra verður hjer á ferðinni, og sleppi því þess vegna hjer.

4. þegar taldir eru upp verslunarstaðirnir í Skagafjarðarsýslu, er alveg gleymt einum, sem sje Haganesvik, en í Húnavatnssýslu er talin Lambhúsavik, þótt þar hafi aldrei verið verslun, og sýnir þetta litla vandvirkni.

5. Í ástæðum fyrir frv. er sagt, að 2 fyrstu mánuðirnir fari að mestu árlega til að innheimta ríkissjóðstekjur og til reikningsskila, en alveg fer þetta í bága við mína reynslu sem sýslumanns. Þessi vinna er nokkurn veginn jöfn alt árið, nema hjá trössum, sem draga alla innheimtu langt úr hófi fram, og ætti slíkt að vitast en ekki „sanktionerast“ í stjórnarfrumvarpi.

6. Málatala og upphæð ríkissjóðstekna er alls ekki óbrigðull mælikvarði á starfsmagnið í sýslunum. Sumir sýslumenn eyða málaferlum og sumir auka þau, alt eftir því, hvernig mennirnir eru.

7. Í frv. er alstaðar gert geysimikið úr, hversu Suður-Múlasýsla sje örðug, og skil jeg vel í ástæðunum fyrir því. En þá er næsta undarlegt, að ætla samt að bæta Austur-Skaftafellssýslu við hana.

8. Það er eftirtektarvert í aths., að þar er hvergi látið líta svo út, að almenningi sje bagi að samsteypunni og ekkert gert úr því, þótt almenningur þurfi að taka sjer langar ferðir á hendur til þess að finna sýslumann, t. d. á skiftafundi, til rjettarhalda, til að sækja leyfisbrjef o. s. frv.

9. Í aths. segir, að tollar og vörujöld sjeu talin þar, sem skip tekur fyrst höfn í landinu, en þetta er alveg rangt. Slík gjöld eru talin þar, sem varan er flutt á land.

Af öllu því, sem jeg hefi nú tekið fram, vona jeg að það sjáist, að frv. þetta getur ekki, á ekki og má ekki verða að lögum.