16.03.1923
Neðri deild: 21. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í B-deild Alþingistíðinda. (250)

12. mál, aðflutningsbann á áfengi

Björn Hallsson:

Jeg stend eigi upp til þess að hjálpa háttv. frsm. (MJ) um svar, því hann mun vera einfær um það, en þar sem jeg hefi ekki fyr tekið til máls í Spánarmálinu, vil jeg með nokkrum orðum lýsa afstöðu minni.

Jeg leit svo á Spánarmálið á síðasta þingi, að eigi yrði hjá því komist að semja við Spánverja á þeim grundvelli, sem gert var, ef komast ætti hjá hruni annars af stærstu atvinnuvegum landsins, og það þeim, sem gefur landssjóði mestar tekjur. Jeg hafði ekki neina löngun til þess í fyrra að veita víni yfir landið. En heldur vildi jeg fylgja þessari undanþágu frá bannlögunum heldur en sjávarútvegurinn færi um. Jeg er sömu skoðunar enn þá, því sömu ástæður eru nú fyrir hendi og þá. Einnig finst mjer rjett að samþykkja frv. í því formi, sem það kom frá stjórninni. Vildi heldur í fyrra regluleg lög heldur en heimildarlög handa stjórninni. Gat ekki skilið þá. hvers vegna þeim lögum mætti ekki breyta, ef eitthvað það kæmi fram síðar gagnvart fiskmarkaði, sem gerði það að verkum, að hægt væri að taka bannlögin aftur upp óbreytt. Jeg get heldur ekki sjeð, að brtt. háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) bæti nokkuð úr skák, því ef ástæður breytast, má altaf breyta lögunum, þótt ekki sje sett ákvæði í þau, hvað þau eigi að gilda lengi. Annars á jeg erfitt með að skilja afstöðu þessa háttv. þm. (SvÓ) til þessa Spánarmáls. Hann talar á móti því bæði á þingi og á þingmálafundum, og ber á móti öllum útreikningum fjárhagsnefndar síðasta þings, en greiðir svo atkvæði með öllu saman, þrátt fyrir alt. Samkvæmari væri hann sjálfum sjer. ef hann hefði fylgt dæmi háttv. 2. þm. Reykv. (JB) í fyrra, sem bindindismenn hjer álitu þá nokkurskonar dýrling í þessu efni. Hann greiddi þó atkvæði á móti og talaði líka sama hátt. Háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) talaði um kúgun og sjálfstæðisskerðingu. Það er auðvitað rjett, að við verðum að láta undan stórþjóðunum: hjá því verður ekki komist. Við erum ekki nógu máttugir að standa á móti straumnum. En hvað yrði úr sjálfstæðisrembingi okkar. ef við yrðum algerlega fjárhagslega ósjálfstæðir? Er víst vart á það bætandi frá því, sem nú er, hvað þá ef Spánarmarkaðurinn hefði lokast.

Jeg mun því, svo sem jeg hefi áður tekið fram, greiða atkvæði með því, að samþykt verði lög, er ekki sjeu bundin við sjerstakt tímabil. Þeim má ávalt breyta síðar með breyttum aðstæðum.