02.05.1923
Neðri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í C-deild Alþingistíðinda. (2500)

4. mál, embættaskipun

Forsætisráðherra (SE):

Háttv. 1. þm. Skagf. (MG) byrjaði með því að geta þess, að frv. þetta væri mjög svo óvinsælt. Má vera, að sumum þyki hjer oflangt gengið í sparnaðaráttina; er það svo með allar nýjungar, sem eru mikilfengar, að þær mæta mikilli mótspyrnu í byrjun. Háttv. þm. sagði, að það væri gott að spara, ef þá aðeins væri sparað á rjettum stað, og benti í því sambandi á háskólann. En enn þá mun mönnum í fersku minni sparnaðurinn, sem þar átti að verða, og sá var nú ekki upp á marga fiska. Jeg á við það, þegar leggja átti niður embætti próf. Guðm. Finnbogasonar og grískudósentsembættið. Á því fyrra hefði vitanlega ekkert sparast, þar sem embættið var bundið við nafn, og próf. Guðm. Finnbogason væntanlega hefði gert fullar kröfur fyrir dómstólunum, ef embættið hefði verið tekið af honum. Um hitt atriðið var það og sýnt, að þar gat heldur ekki verið um neinn sparnað að ræða. Því tilætlunin var, að embættismaður sá, sem í embættinu var, fengi mikla „pension“, og var það dálagleg braut að leggja út á. Og þar sem jeg hefi ekki orðið þess var, að þessi hv. þm. (MG) hafi viljað spara annað við háskólann en þessi tvö embætti, er óhætt að slá striki yfir háskólasparnaðinn. Sannleikurinn er sá, að tímarnir eru allverulega breyttir, og því gildir annað um sýslumennina nú en fyrrum. Landið er að vísu það sama, og þó er landið orðið alt annað en það var. Vegir, símar og yfir höfuð allar samgöngubætur hafa dregið úr öllum fjarlægðum. Menningarástand þjóðarinnar er alt annað nú en þegar embætti þessi voru stofnuð. Fyrrum þurfti almenningur að sækja nálega alt til embættismanna, en nú er þetta orðið breytt, því nú geta menn sótt mest af því til sjálfra sín eða til annara góðra manna í sveitinni.

Eini mögulegleikinn til verulegs sparnaðar er yfir höfuð stækkun á embættunum, og þeir, sem vilja koma þeim mögulegleika fyrir kattarnef, slá allan sparnað rothögg.

Jeg get vel búist við, að þetta frv. verði felt hjer í dag, en úr sögunni er það ekki.

Eftir kosningarnar spái jeg, að það risi upp aftur, og ef svo fer, þá er í sjálfu sjer ekki miklu tapað, þó það nái ekki fram að ganga á þessu þingi.

Verði jeg áfram við stjórn, mun jeg ekki skipa neinn í þessi embætti, sem hjer um ræðir, þótt þau losni, til þess að mögulegleikarnir fyrir þessum sparnaði standi opnir.

Því hefir nú í raun og veru verið haldið fram um allar þær sparnaðartilraunir, sem komið hafa fram hjer í þinginu, að í þeim væri enginn sparnaður. En hvernig sem málinu er velt, mun eini verulegi sparnaðarmöguleikinn vera sá, að embættum sje fækkað og þau stækkuð.

Það hefir nú sjest, hvernig tekist hefir með sparnaðinn á skrifstofufje manna hjer í Reykjavík, sem mikið hefir verið talað um. Tilhneiging þingsins hefir verið að hækka skrifstofufje sumra æðstu embættismannanna hjer í Reykjavík frá því, sem ákveðið var í stjórnarfrumvarpinu.

Sum embættin, eins og embætti lögreglustjóra, eru þannig vaxin, að skrifstofufje þar hlýtur að aukast, eftir því, sem kröfur tímanna verða harðari um aukna tollgæslu.

Tímarnir eru breyttir, því verður ekki neitað, og öðruvísi en áður er nú litið á sýslumennina. Því er það eina ráðið til þess að hefja þessi embætti aftur til síns forna vegs og álits hjá almenningi, að stækka þau og gera þau ábyrgðarmeiri en nú er.

Það er svo með sum þessi embætti, að það er aumlegur sparnaður að láta í þau menn, sem með löngu og erfiðu námi hafa búið sig undir að verða færir til þess að gegna þýðingarmiklum störfum í þjóðfjelaginu og varið til þess löngum tíma af sínum bestu árum, og svo eru þeir settir til þess að vinna skrifstofustörf, sem menn með enga eða litla sjerþekkingu geta hæglega leyst af hendi.

Þess vegna er það nauðsynlegt, að stækka þessi embætti, og það er nóg að hafa einn löglærðan sýslumann í hverju þessara embætta, sem frv. gerir ráð fyrir, nema ef til vill í þeim allra stærstu; þar mætti gera ráð fyrir lögfróðum aðstoðarmanni. þróttmesta sönnunin fyrir því, að þetta sje rjett, er tekin út úr lífinu, eins og það er nú, að stærstu embættum þeim, sem nú eru, er vandræðalaust að gegna með hæfilegri aðstoð. Eftir hugsunargangi hv. 1. þm. Skagf. (MG) yrði að skifta öllum þeim stærri embættum, sem nú eru, en fyrir því finnast engin rök, að það sje nauðsynlegt. Hann (MG) á, sem sagt, engin „argumenta“ til í sínum fórum. Sem frsm. hefði hann átt að koma fram með rökstutt nál. Stjórnin átti heimting á því. En rök þau, sem, hv. frsm. (MG) færir fram, eru næsta ljeleg, og það versta er, að dæmi þau, er hann hefir komið með, eru þannig vaxin, að erfitt er að átta sig á þeim í umræðum um málið. Því tók háttv. frsm. ekki þessi dæmi sín upp í nál., svo að stjórnin hefði haft betri tíma til að átta sig á þeim ? Jeg held nú annars, að það verði fullerfitt að sannfæra þjóðina um, að enginn sparnaður verði að þessu. Það er satt, að Húnavatns- og Skagafjarðarsýslurnar verða einna stærsta lögsagnarumdæmið. En fyrirfram mun enginn trúa því, að aðeins það, að tvær skrifstofur verða að einni, muni ekki leiða til töluverðs sparnaðar. Við það, að þingaferðir leggjast niður, verður einnig ómótmælanlega mikill sparnaður. Jeg hygg, að rjett sje, að ekki þurfi nema hálfan mann til aðstoðar á mörgum sýsluskrifstofunum. En jeg hygg, að það verði fullerfitt að útvega þessa hálfu menn; ástæðurnar víða svo, að annaðhvort verður að taka heilan mann, þó ekki sje nóg fyrir hann að gera, eða þá engan. Með stækkun embættanna mætti því koma haganlegra fyrirkomulagi á skrifstofurnar, og það munar ekki svo litlu.

Hv. frsm. (MG) hefir margendurtekið það, að skrifstofukostnaður sýslnanna væri of hár, en þetta er hin mesta firra, og það mun eigi líða á löngu áður en sú krafa verður almenn, að sýslumenn hafi sömu upphæðir hlutfallslega til skrifstofuhalds og tíðkast á opinberum skrifstofum í Reykjavík. Ef þessi krafa verður tekin til greina, og hver efast um að svo muni verða, þá fyrst mun verða ljóst, hvað mikinn sparnað leiðir af þessu frv.

Þá hneyxlaðist háttv. frsm. (MG) á því, að í ástæðum stjórnarinnar fyrir frv. er tekið fram, að mest verði að gera í sumum þessum embættum 2 fyrstu mánuði ársins. En svo mun það nú samt vera, því þá verður að herða á, að alt komi inn frá fyrra ári, og þá verður að ljúka reikningum embættisins.

Jeg held því enn fram, að miklar tolltekjur sýni vanalega, að mikið sje að gera í hjeraðinu, því þær eru teikn upp á fjörugt viðskiftalíf. En þar sem viðskiftalífið er þannig, þar er einnig mikið af dómsmálum. Og að þessu leyti má af því, hvað mikið er af dómsmálum í einu hjeraði, ráða mikið um, hvað fjörugt viðskiftalíf sje þar.

Beri menn nú saman stærstu embættin, sem nú eru, og hin umfangsmestu þessara nýju embætta, t. d. Suður-Múlasýslu og Skagafjarðar- og Húnavatnssýslur, þá mun sjást, að miklu minna er um að vera í Skagafjarðar- og Húnavatnssýslu en í Suður-Múlasýslu. Það er margsannað, að engin hinna nýju einbætta verða svo stór, að eigi sjeu stærri embætti til áður. Nú eru alstaðar símar og samband milli hjeraða, hvar sem er, þannig, að ætið er hægt að fá leiðbeiningar, ef með þarf, jafnvel frá Rvík., til hvaða hjeraðs sem væri. Er almenningur því miklu betur settur en fyr á tímum.

Í áliti minni hl. er lögð áhersla á, að embættin megi ekki vera svo stór, að sýslumenn geti ekki haft forystu í hjeraðsmálum. Hjer er þó sá munur á hv. minni hl. og hv. meiri hl., að þar sem meiri hl. leggur árar í bát og kemur með engar sannanir, þá er þó hjer viðleitni af minni hl. hálfu í þá átt. Því ef það væri rjett, að hjeraðsbúar yfirleitt ættu ekki svo góða menn, að þeim mætti fela forustu sýslunefndanna, þá væri hjer um veruleg rök að ræða. En sá galli er á gjöf Njarðar, að jeg lít svo á, eftir minni þekkingu í sýslunum, og jeg er víða nokkuð kunnugur, að í þeim sjeu fleiri en einn og fleiri en tveir, sem sjeu mjög vel færir til þess að hafa þessa forustu á hendi. Og eftir minni þekkingu á sýslunefndunum og gætni þeirra í fjármálum, þá treysti jeg þeim sannarlega til þess að velja þessa menn.

Háttv. frsm. meiri hl. (MG) hefir lítið farið út í aðrar samsteypur en Húnavatns- og Skagafjarðarsýslna. Þó hefir verið talið, að ófært væri að sameina Borgarfjarðarsýslu við Gullbringu- og Kjósarsýslu. Jeg vil láta þess getið, að sýslumaðurinn í Gullbr.- og Kjósarsýslu kom til mín nýlega upp í stjórnarráð og tjáði mjer, að hann mundi með ánægju taka við þessari aukningu. Hitt hefir verið sýnt fram á í athugasemdum við frv., að hjeraðsbúum þeim, sem eru utan Akraness, mundi einum verða nokkur óþægindi að þessari samsteypu. Og þó held jeg, að þau óþægindi yrðu lítil, því jeg held menn sjeu farnir að una því sæmilegar en hjer er haldið, þó ekki sjeu gyltir hnappar á hverri þúfu.

Háttv. minni hl. nefndarinnar er stjórninni sammála um sumt, eins og t. d. um sameining Dalasýslu og Strandasýslu, en auk þess hefir hann komið með tillögu um nýja samsteypu. En jeg held, að hún sje ekki eins heppileg og samsteypurnar í stjórnarfrumvarpinu. Jeg get vel, að gefnu tilefni frá minni hl., lýst því sama yfir, sem jeg tók fram áður, að jeg mun yfir höfuð ekki veita nein embætti á næstunni, sem standa í sambandi við samsteypur þær, sem stjórnin hefir stungið upp á. Og þó fella eigi frv. þetta nú, þá mun reka að því, að augu manna opnast fyrir því, að embættabákn þjóðarinnar er alt of stórt og að sníða verður það eftir þeim breyttu tímum. Og um það þykist jeg viss, að jeg eigi eftir að sjá suma þá, sem nú berjast harðast gegn frv. þessu, greiða atkv. með því í framtíðinni.