02.05.1923
Neðri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í C-deild Alþingistíðinda. (2503)

4. mál, embættaskipun

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Hæstv. forsrh. (SE) vildi ekki fallast á þá ástæðu, móti fækkuninni, að umdæmi sýslumanna mættu ekki vera stærri en svo, að sýslumennirnir gætu haft á hendi hjeraðsstjórn og forustu í innanhjeraðsmálum. Hins vegar talaði hæstv. ráðherrann um það, að rjettara væri að ganga inn á þá braut, sem þegar væri hafin sumstaðar, þar sem bæjarstjórnirnar hefðu kosið sjer sjerstakan formann. En um þetta er það að segja, að þó einstaka kaupstaður, svo sem Reykjavík, hafi færst þetta í fang af knýjandi nauðsyn, þá yrði þetta bæði alt of dýrt og óhentugt út um sveitir, eins og öll skifting embætta, og auk þess í andstöðu við þá rjettu stefnu í málinu. Því fækkun embætta á vitanlega að miðast við það, að sameina sem mest af svipuðum störfum á einum og sama stað, en ekki það, að þenja embættin yfir sem mesta víðáttu. Og án þess að jeg vilji gera lítið úr fólkinu hjer, get jeg sagt það, að jeg þekki þau hjeruð, þar sem engin innanhjeraðsmaður mundi vera fær um að hafa á hendi stjórn sýslumála. En þar sem allmikið er hjer í húfi, en mest trygging fyrir því, að þetta geti farið vel úr hendi hjá sýslumönnunum, þó auðvitað geti þeim skjátlast líka, þá er best að láta þá hafa þetta áfram, þar sem því verður við komið. Ef þetta færi í ólagi hjá þeim, er það líka sjálfsögð skylda stjórnarinnar að taka í taumana.

Inn í þessar umr. hafa einnig verið dregin nokkur önnur sparnaðarmál, einkum háskólinn. Jeg get því gjarna sagt það, hvað jeg og margir aðrir álíta að gera eigi í því máli, og það er að leggja niður heimspekisdeildina. Því það er bersýnilegt, að við höfum ekkert við það að gera, að framleitt verði svo mikið af sagnfræðingum, málfræðingum og heimspekingum, sem samsvari kennarakröftum og kostnaði þessarar deildar. Þessi deild er því beinlínis hættuleg fyrir nokkurn hluta þjóðmenningar okkar, þar sem hún varnar því, að menn sæki þessa mentun sína þangað, sem hún er meiri og betri en unt er að fá hana í þessu fiskiveri. Því hjer verður aldrei lagt það fje og þeir starfskraftar til þessarar deildar, sem þarf til þess, að hún geti verið samsvarandi samskonar háskóladeilum annarsstaðar. það er því beint menningarmál, að þessi deild verði lögð niður sem fyrst. Og jeg vil beina því til hæstv. forsætisráðherra (SE), að ef svo færi, að eitthvert embætti losnaði í þessari deild fyrir næsta þing, þá verði það ekki veitt aftur, ef til þess kæmi, að menn vildu ráðstafa deildinni öðruvísi og skynsamlegar en nú er gert og jeg hef sýnt hjer áður.