02.05.1923
Neðri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í C-deild Alþingistíðinda. (2504)

4. mál, embættaskipun

Frsm. meiri hl. (Magnús Guðmundsson):

Jeg skal vera stuttorður og ekki harðorður, enda er hæstv. forsætisráðherra (SE) orðinn svo reiður, að ekki er á það bætandi. Einkum er það út af þessum hálfa manni, og virtist hann halda, að taka ætti manninn sjálfan og skifta honum í tvent. En jeg get frætt hann á því, að það er misskilningur; það eru aðeins störf hans hálf, sem um er að ræða. Og jeg veit það af eigin reynd, sem sýslumaður, að slíka menn að hálfu er altaf hægt að fá, og er þar með kipt fótunum undan þeirri staðhæfingu hæstv. forsrh. (SE), að ekki sje unt að fá eða komast af með minna en heilan mann. Hæstv. forsrh. var að tala um það, að jeg væri á móti öllum sparnaði. En hvernig var það með stjórnarskrána? Var þar ekki um að ræða margfalt meiri sparnað en hjer, og það sparnað, sem kom strax, en ekki fyrst eftir 20–30 ár. Og var jeg ekki með því, en hæstv. forsrh. á móti? Nei, það er sama, hvað hæstv. forsrh. talar hátt og mikið um sparnaðinn, og vitnar til þjóðarinnar, hún mun áreiðanlega sjá, hvernig í þessu öllu liggur og kunna að meta það, kunna að meta minn sparnað og hans yfirborðssparnað. Hann taldi rjettast fyrir mig að þegja, og að jeg ljeti velvild mína til Skagfirðinga hlaupa með mig í gönur. En jeg vil benda honum á, að jeg hefi hjer málfrelsi eins og hann og spyr hann ekki um, hvað jeg segi, og um viðskifti mín og Skagfirðinga er rjettast fyrir hann að skifta sjer ekki. Öðrum atriðum þarf jeg ekki að svara, svo sem, um skrifstofukostnaðinn, sem jeg hefi talað fullkomlega um áður og hrakið þar ummæli hæstv. forsrh. (SE).