02.05.1923
Neðri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í C-deild Alþingistíðinda. (2505)

4. mál, embættaskipun

Forsætisráðherra (SE):

Jeg skal ekki vera mjög langorður, en mjer sýnist nú, að nauðsynlegt muni vera að láta tölurnar tala. Og er þá rjett að athuga, hvort það er eins fjarstætt eins og hv. frsm meiri hl. (MG) heldur fram, að komast megi af með það skrifstofufje í hinum nýju sýslum, sem gert er ráð fyrir í ástæðunum fyrir stjfrv. Jeg skal þá fyrst nefna Gullbringu- og Kjósarsýslu og Borgarfjarðarsýslu með Hafnarfirði. í Gullbringu- og Kjósarsýslu var skrifstofukostnaðurinn 1922 kr. 6000. Ef bætt er nú við þetta skrifstofukostnaðinum í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, 2500 kr., og því, sem sparast við að leggja þingaferðirnar niður, um 600 kr., þá hygg jeg, að núverandi sýslumaður í Gullbr.- og Kjósarsýslu mundi telja það ávinning fyrir sig að bæta Borgarfjarðarsýslu við, fengi hann skrifstofukostnaðinn svo mjög aukinn, og auðvitað. þyrfti ekki að bæta svo miklu við hann. Þá kem jeg að Snæfellsnes-, Hnappadals- og Mýrasýslu. í Snæfellsnessýslu er skrifstofukostnaður sama ár 2500 kr. Við niðurlagningu þingaferðanna sparast 600 kr., og ef svo væri bætt við 200 kr., þá hygg jeg, að það mundi nægja, þar sem störf sýslumannsins í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu mundu aukast mjög lítið, þó Mýrasýslu væri bætt við. Þá kemur Húnavatns- og Skagafjarðarsýsla, sem mest hefir verið rætt um. Í þessum sýslum báðum er skrifstofufje 1922 5000 kr. Ef svo eru taldar 600 kr., sem sparast við niðurlagningu þingaferða og enn bætt við 2000 kr., þá hygg jeg, að sýslumaður, sem hefði slíkt skrifstofufje, mundi eiga mjög hægt með að þjóna þessum sýslum báðum. í Dala- og Strandasýslu er skrifstofufje beggja sýslna 1922 2450 kr. samanlagt. Á niðurlagningu þingaferða sparast 600 kr. Og hygg jeg því, að þetta skrifstofufje muni nægja í hinum sameinuðu sýslum. í Eyjafjarðarsýslu og Akureyri með Siglufirði var skrifstofufje 1922 12200 kr. Við niðurlagningu þingaferða sparast 600 kr. Ef svo væri bætt við 1000 kr., þá skil jeg ekki, að á meira skrifstofufje þyrfti að halda í þessari nýju sýslu. í Suður-Múlasýslu og Austur-Skaftafellssýslu er skrifstofufje 1922 4800 kr. Við niðurlagningu þingaferða sparast 600 kr. Þetta skrifstofufje mundi fara Langt í hinni nýju sýslu, því í Austur-Skaftafellssýslu er mjög lítið að gera. í Árnes- og Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu er skrifstofufje 1922 (alt skrifstofufjeð í Skaftafellsýslu er tjalið til V.-Skaftafelssýslu, sem auðvitað er ekki alveg rjett, en skiftir engu máli í þessu sambandi) 8000 kr., 600 kr. sparast við niðurlagning þingaferða, og ef svo er bætt við 300 kr., þá hygg jeg, að sýslumaðurinn í þessari sýslu hafi allsæmilegt skrifstofufje. Þessar viðbætur, sem lagðar eru til hinum sameinuðu sýslum, nema samtals 3500 kr., en það er sú upphæð, sem gert er ráð fyrir í ástæðunum fyrir frv. Auðvitað mætti jafna þessari upphæð öðruvísi niður. Og þó enn þyrfti að bæta 2–3000 kr. við, þá sparaðist ekki lítið við samsteypuna, en hins vegar er skrifstofufjeð í hinum nýju sýslum þó mun álitlegra en það skrifstofufje, sem lagt er nú til sýslnanna óskiftra, svo mikið hagræði er að samsteypunni, sem eðlilegt er, þar sem skrifstofunum fækkar svo mikið.

Jeg er sammála hv. frsm. meiri hl. (MG) um það, að í ýmsum sýslum þarf ekki nema skrifara. En svo fæst ekki sá skrifari, og þá þarf að fá heilan mann, og hvað fer í óþarfa kostnað við það?

Háttv. frsm. minni hl. (JÞ) sagðist ekki treysta því, að sýslurnar hefðu völ á færum mönnum til að standa fyrir hjeraðsmálum sínum. En eftir þekkingu minni á mannavali í sveitum, og jeg tala þar ekki út í bláinn, því jeg hefi verið sýslumaður í mörgum sýslum, þá er jeg þess fullviss, að það er til fjöldi manna, fjöldi skynsamra og gætinna manna, sem eru ágætlega vel til þess fallnir að vera oddvitar.

Um það, að leggja niður heimspekisdeild háskólans, get jeg ekki verið hv. þm. (JÞ) sammála. Jeg skal játa það, að jeg tel nóg að hafa einungis einn heimspekiskennara, enda var jeg á móti því, að stofnað væri embættið í hagnýtri sálarfræði. En jeg gat ekki verið með því í fyrra, að embættið væri lagt niður, því jeg áleit, að þessum manni hafi verið gefið loforð fyrir að halda því, þar sem það er bundið við hans nafn. En þegar þetta embætti losnar, tel jeg sjálfsagt, að það leggist niður. En það er óhjákvæmilegt að hafa einn prófessor í heimspeki, og það er álitið nauðsynlegt við alla háskóla erlendis.

Um söguprófessorinn er það að segja, að jeg álít, að saga hafi svo mikla þýðingu, bæði fyrir okkur sjálfa og þá erlendu menn, er sækja þennan skóla, að ekki nái nokkurri átt að leggja þetta embætti niður, og líkt má segja um íslenskuprófessorinn. Ef kensla í íslensku væri lögð niður, yrði þetta enginn háskóli lengur. Ber jeg engan kviðboga fyrir því, að of margir menn útskrifist í þessum greinum.

Jeg þykist nú hafa, bæði nú og í fyrri ræðum, sýnt fram á, að í þessu frv er lögð byrjun að nýju embættakerfi við hæfi þjóðarinnar. Ef frv. yrði samþykt, muni það leiða til, að framhald yrði á þessu einnig á öðrum sviðum. Embættismennirnir í þessu landi mega ekki vera of margir. Verkefnin eru nóg á öðrum sviðum. Framleiðslan þolir ekki alt of þunga embættisbagga, og framleiðslan þarf að halda á mönnum, færum og ötulum mönnum. Embættabáknið má ekki gleypa alt of marga af þeim.

Þetta mál hlýtur að sigra, og hafi jeg talað af hita, þá er það af því, að jeg trúi á þetta mál og sigur þess.