02.05.1923
Neðri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í C-deild Alþingistíðinda. (2506)

4. mál, embættaskipun

Frsm. meiri hl. (Magnús Guðmundsson):

Hæstv. forsrh. (SE) hefir nú gert grein þess, hvernig á að verja þessum 3500 kr. Er dálítið einkennilegt, að hann skuli vilja verja 2000 kr. í þær samsteypusýslurnar, er jeg tók til samanburðar. Sýnist hann hafa ekið þar seglum eftir vindi. En Suður-Múlasýslu og Austur-Skaftafellssýslu ætlar hann ekkert samkvæmt áætluninni. Þar er ekki gert ráð fyrir neinni viðbót. Ef 2000 kr. er varið til viðbótar í Skagafjarðar- og Húnavatnssýslu, 1000 kr. í Eyjafjarðarsýslu og 300 kr. í Snæfellsnes-, Hnappadals- og Mýrasýslu, þá eru einar 200 kr. eftir, sem eru til viðbótar í öllum hinum samsteypusýslunum. Er auðsætt af allri þessari röksemdafærslu hæstv. forsrh. (SE), sem annars var í meira lagi þokukend, að það er rjett hjá mjer, að ef 3500 kr. eru nægilegar til viðbótar, þá er það óhjákvæmileg afleiðing þess, að þessir 6 sýslumenn, er á að afnema, hafa ekkert haft að gera og aðeins unnið rúmlega fyrir þessum 3500 kr. Um 1/2 manninn er það að segja, að það verða sýslumennirnir að eiga um við sjálfa sig, hvort þeim tekst að ná sjer í aðstoð eða verða að taka fullkominn mann.

Hæstv. forsrh. (SE) taldi mikinn sparnað að þessu. Jeg hefi sýnt með tölum, hver hann mundi verða, og jeg get fullvissað hæstv. forsrh. um, að sparnaðurinn mundi verða miklu minni heldur en af þinghaldi annaðhvert ár. Talar hæstv. forsrh. meira af tilfinningum en rökum í máli þessu, en jeg lit aðeins „praktiskt“ á málið.

Jeg skil ekki, hvernig hæstv. forsrh. getur haldið því fram, að það sje úrelt að hafa þetta fyrirkomulag áfram, þar sem störf þessara manna eru altaf að aukast og þeim falin nær því öll innheimta ríkissjóðsins.